spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaHaukar eiga góða möguleika á að komast í riðlakeppni EuroCup eftir sigur...

Haukar eiga góða möguleika á að komast í riðlakeppni EuroCup eftir sigur í fyrri leik gegn Sportiva

Evrópuævintýri Hauka

Það má vera að íslensku landsliðin í körfu- og handbolta hafi ekki löglegt íþróttahús til að nota til alþjóðlegra keppnisleikja en Ólafssalur í Hafnarfirði bjó Haukum flotta umgjörð um fyrsta Evrópuleik íslensks kvennaleiks frá 2006.

Að ná andanum og frumkvæðinu

Það er þekkt í boltaíþróttum að fyrstu mínútur hvers leiks taka á taugarnar og því meira sem undir er því skýrari verður spennutilfinningin. Leikmenn fá smá gæsahúð og hnén kikna örlítið. Best er að „fá blóð á tennurnar strax“, vinna eitthvað gott í vörninni og fá 1-2 auðveld skot. Haukar tóku uppkastið og skoruðu fyrstu fjögur stig leiksins og hefðu Elísabetu ekki verið mislagðar hendur undir körfunni hefði byrjunin jafnvel verið enn flottari.

Haukastúlkur verulega betri á fyrstu mínútunum og Sportiva tekur leikhlé í stöðunni 10-1. Vörn Hauka gaf fá færi á sér og hraði Hauka upp völlinn virtist koma portúgölskum á óvart.

Sportiva koma ákveðnar út úr leikhléinu og skora næstu sex stig, 10-7. Á sama tíma herða þær vörnina og Haukar í vandræðum með að fá viðunandi skotfæri. Hraði Nauseu er of mikill fyrir varnarmenn Hauka. Bæði liðin virðast hafa fundið jafnvægi sitt og nú er mikilvægt fyrir Hauka að gefa ekki eftir frumkvæðið í leiknum.

Leikmenn Sportiva pressa bakverði Hauka sem sýna örlítil streitumerki. Liðið keyrir líka upp hraðann og vörn Hauka er  örlítið viðkvæm. Fyrstu skiptingar Hauka líta dagsins ljós og Bríet og Lovísa koma inn. Vörn Sportiva geldur fastari spilamennsku og bæði liðin komin í Bónus þegar 3 mínútur eftir. Sportiva liðið er fyrst í villuvandræði þegar 43 fær þriðju villuna. Staðan er 14-11 þegar 2 og hálf eftir af fyrsta leikhluta. Frumkvæðið virðist vera komið til þeirra portugölsku því Haukar finna vart skotfæri.

Lovísa gefur eftir sóknarfrákast eftir víti en Helena gerir vel og fær ruðning dæmdan undir körfunni. Það þarf líkamsstyrk til að vinna þennan leik en dómarar leiksins eru ekki alveg tilbúnir að leyfa of mikla hörku.

Jana og Sólrún eru komnar inn og gefa ferskt bragð varnarlega en 13 heldur áfram að finna leiðina að hringnum og skorar fyrstu stigin sem ekki koma af vítalínunni, 18-15.

Haukar fá síðustu sóknina í leikhlutanum í stöðunni 18-17 og það er alltaf spenna í þeirri stöðu enda getur góð lokakarfa gefið gott eldsneyti í næsta leikhluta. Helena skorar góða körfu en of mikill tími skilinn eftir á klukkunni og 14 nælir í vítaskot þegar tíminn er útrunninn. Naumt 20-18 forskot fyrir Hauka.

Fimm leikmenn skoruðu fyrir hvort lið og liðin skiptu villunum líka jafn, 7-7. Frábær frammistaða Hafnfirðinga en stundum fer of mikil orka í byrjun leiks. Portúgölsku virðist eðlislægara að spila fast. Verður áhugavert að sjá hvort dregur af Haukum en Bjarni notaði 9 leikmenn í fyrsta leikhluta.

Sportiva nær sér á strik en Haukar standast pressuna

Sportiva nær að komast yfir í fysta skipti í upphafi leikhlutans og virðast líklegri. Bjarna lýst ekki á holninguna á liðinu á vellinum og tekur leikhlé innan mínútu frá upphafi, staðan orðin 20-23 fyrir Sportiva. Nú þarf sterk orð til hvers leikmanns um að vinna fyrir sínu plássi á vellinum.

Sportiva hefur sterkara út úr leikhléinu og komast í 20-27 en Sólrún svarar með regnbogaþrist. Haukum duga engar hálfkveðnar vísur sóknarlega, það þarf heila limru til að brjóta þessa portúgölsku vörn aftur. Helena nota líkamsburði sína vel og nær sér í þrjú stig upp á gamla mátann, með því að fiska villu um leið og hún skorar.

Sportiva notfærir sér gjarnan hæðar- og styrkleikamun (lesist líkamsþyngd) í sókninni. Leikmenn eru duglegir að setja varnarmenn „á rassinn“ og skjóta hreinlega yfir vörnina þegar sendingin berst. Barátta Hauka er til fyrirmyndar en það hlýtur að vera lýjandi til lengdar að berjast við sér stærri og þyngri menn.

Haiden Palmer vaknar til lífsins og setur fimm góð stig og Tinna bætir við tveimur. Smá Haukasprettur 34-29 og þjálfarar Sportiva taka leikhlé. Þjálfararnir hér, beggja megin, ætla ekki að leyfa neina egómagnandi spretti.

Sportiva stúlkur er færar í að nýta sér hæðina. Hafa nokkrum sinnum sett upp boltaskrín djúpt á vængnum, neytt Hauka til að skipta og loftað síðan bananaboltum inn stóru leikmennina sem eiga auðvelt lokaverkefni, rétt við hringinn.

Tinna gerir frábærlega, tekur mann sinn á og klárar undir pressu við hringinn 36-31. Það er Haukum nauðsynlegt að geta tekið 1-1 öðru hvoru.  Þrjár mínútur eftir af hálfleiknum.

Rósa kemur inn. Mikill hæðarmunur sem hún þarf að berjast við. Haukastúlkur og stuðningsmanna stúkan ekki hrifin af því hvernig dómarirnar leyfa stóru Sportiva stelpunum að vera rúmmálsfrekar í teignum. Aftur sækir Tinna alla leið á hringinn og staðan 38-34 þegar 1:40 eftir af hálfleiknum.  Þetta er svo viðkvæmur tími, þetta er 44 mínutan í fótboltanum. Gott að sjá Helenu koma aftur inn og með henni kemur Jana. Bjarni bætir um betur og tekur leikhlé, Haukar með boltann og munurinn bara dúsa, 38-36.  Nú þarf að setja upp þessar 95 sekúndur vel og vandlega, finna varnarveikleika og setja undir helstu leka. Haukar mega ekki brjóta en Sportiva hefur villu að gefa.

Góð Haukasókn þrátt fyrir harða pressu og Rósa sækir víti og hendir þriðju villunni á 11, Bæði vítin niður. Frábær vörn en samt þristur í andlitið. Síðasta sóknin er Hauka og eins stigs forskot. Karfa núna telur 5 stig en Sportiva vörnin er verkefninu vaxin og þær vinna boltann með 5,4 sekúndur eftir. Það skilar engu og Haukar fara með eins stigs forskot inn í hálfleikshléið, 40-39.

Hálfleiksuppgjör

Það er vel gert hjá Haukum að setja 40 stig á svo hávaxið og sterk lið eins og Sportiva en enn betra að halda þeim í 39 stigum. Styrkur Sportiva er í teignum og settu þær aðeins niður tvo þrista í hálfleiknum en Haukar gerðu því miður ekkert betur.  í ljósi hæðarmunar og þess að flest skot þeirra portúgölsku eru tekin í 101 þá er 38% skotnýting afleit niðurstaða fyrir Sportiva og felst í því áskorun fyrir Haukastúlkur að koma í veg fyrir að þessi prósenta verði verðbólgu að bráð.

Haukar skiluðu fleiri framlagsstigum en ekki munar miklu. Haukar þurfa meira á því að halda í seinni hálfeiknum að opnist fyrir skotin utan af velli. Þá hefur Laxnesinn á lyklaborðinu áhyggjur af því að sú bandaríska Nausia komi sterk inn í seinni hálfleikinn. Hún var sú eina með jákvæða skotnýtingu hjá Sportiva í fyrri hálfleik.

Sá þriðji er oftast lykillinn að leiknum

Þriðji leikhlutinn er oft talinn lykillinn að hverjum jöfnum leik. Eiginlega alltaf nema þegar lið eiga ógleymanlegar endurkomur í þeim fjórða.

Haukar byrja betur og vörnin gefur ekkert. Nausia heppin að fá víti í gegnumbroti á síðustu sekúndum skotklukkunnar. Haukar hitta illa en ásóknin í sóknarfráköstin er uppörvandi. Aftur sækir Nausia villu í teignum og jafnar leikinn 42-42. Frábær Haukavörn skilar fjórum stigum eftir hraðaupphlaup. Þær Haiden og Tinna fara á kostum, 4 stig frá hvorri komin í þriðja og staðan 48-42.

Nausia heldur áfram að draga vagninn fyrir Sportiva og minnkar muninn í 48-46 með þjófnaði og Palli var einn í heiminum lagskoti.

Bjarni aðeins fastheldnari á skiptingar í þessum þriðja en allar að skila sínu varnarlega.  Helena mætir loks hæðar- og þyngdarlegum ofjarli í Kasiyahnu og getur ekki fært hana til sóknarmegin. Sjaldgæf sjón.

Smá streita í loftinu beggja megin. Leikmenn gera sér greinn fyrir mikilvægi hverrar körfu. Eva nælir í fjórðu villuna þegar fimm mínútur eftir. Liðið sem verður fyrra til að finna fjölina utan af velli er liðið sem vinnur. 13 sækir enn eina villuna á Hauka sem eru komnar í bónus og vítalínan gefur áfram. Hún orðin stigahæst Sportiva með 14 stig. Hæðin skilar Sportiva í 50-50 og þær virðast líklegri núna.

Örlítið þreytumerki á báðum liðum þegar 2 mínútur eftir af þriðja. Kasiyahna hjá Sportiva ryksugar upp sóknarfráköstin en gengur illa að skila boltanum niður og Sportiva enn ískaldar frá Nammilandi Gosa, Þriggjastigalandi.

Síðasta sóknin er Hauka og aftur koma Helena og Jana inn á fyrir hana. Bríet neglir langþráður þristi þegar fáeinar sekúndur eftir en Costa svarar með miðjuþristi, 59-57 eftir þrjá og leikurinn heldur áfram að vera þrúgandi spennandi.

Allt undir í fjórða – vilji og orka munu ráða úrslitum

Frábært spil Helena fær laumu frá Bríet. Enn taka Sportiva stúlkur sóknarfráköstin. Nú bjóðast 2-3 þristar í hverri sókn þeirra en enginn vill niður. Alves fer létt með Sólrúnu á póstinum en Jana svarar með góðri körfu. Stuðningsmenn Hauka hafa tekið vel við sér en Haukar ná ekki að slíta sig frá Sportiva. Bríet setur þrist úr horninum og 66-61 staðreynd. Mikil átök í teignum hjá Haukum, milli Kasiyahna og Helenu. Barist um boltann af hörku og sú fyrrnefnda liggur eftir. Vonandi hættir hún að taka öll þessi sóknarfráköst þegar hún kemur aftur inn á.

 Nausia kemur inn fyrir Kasiyahna og viti menn hún á næsta sóknarfrákast og skilar svo niður fyrstu körfu Sportiva utanaf velli í hálfleiknum. Hinum megin sýnir Haiden mátt sinn en aftur setja Sportiva stúlkur niður skota utan af velli og svo það þriðja, nú þrist, og jafna leikinn, 68-68. Haukar taka leikhlé með það sama. 5:19 á klukkunni og varasöm mýri framundan.  Næstu tvær mínutur, næstu 2-3 sóknir og varnarstöður munur ráða því hvort liðið verður með pressuna á sér síðustu mínútuna. Haiden skorar af harðfylgi, Elísabet póstar snemma og skorar. Vörnin heldur og Elísabet nær sjaldgæfu sóknarfrákasti fyrir Hauka. 72-68 forskot og Sportiva tekur leikhlé. Spennan er áþreifanlegt án þess þó að vera óvelkomið áreiti. Klísjan „This is the nature of the game“ kemur upp í hugann. Einn stolinn bolti, einn þristur, eitt sóknarfrákast getur skilið milli feigs og ófeigs. Villuvandræði á línuna hjá Haukum minnkar ekki spennuna.

Þriggja mínútna markið kemur en Elísabet setur risaþrist úr horninu. Pressan er nú öll á Sportiva. Fimm stiga forskot verður sjö þegar Helena á laumu en hún fær sína fimmtu villu í næstu varnarseríu. Hver annar en Nausia sækir hana. Hún hefur verið sterkust portúgalska liðsins í fjórða en setur bara annað, 77-71. Leikurinn er Hauka að tapa akkúrat núna og Haiden skorar enn af harðfylgi.

Lovísa verst í teignum og tekur varnarfrákastið. 79-71 og 90 sekúndur eftir. Leikurinn er unninn ef Haukum tekst að stoppa næstu sókn. Auðvitað taka þjálfarar Sportiva leikhlé, bara til að spennan súrni aðeins. Vont fyrir Hauka að njóta ekki Helenu en Haiden er herforingi sem klárað getur leikinn. Sportiva tekur annað leikhlé, þeir eru ekki að finna lausnirnar þjálfararnir.  Þeir hljóta að setja upp þrist þrátt fyrir sögulega kulda. Haukar koma út í svæði, dobbla hornið og Sportiva klikkar. Haukar eyða 24 sekúndum en Laura nær að veiða villu á Bríet og skora. Klikkar úr vítinu, Nausia nær frákastinu en Haukar vinna boltann eftir klafs. Tapa honum aftur og fá þrist í andlitið. Þessi hlýtur að svíða kinnina á Bjarna sem tekur strax leikhlé. 79-76, 29 sekúndur eftir og allt í einu er öll pressan komin á Hauka. Hvað leggur Bjarni upp?

Tæp sending (löng) inn á Haiden sem nær í villu. Ekki bónus. Aftur fær Haiden boltann. Aftur villa. Enn ekki bónus. Boltinn má ekki tapast núna og hann gerir það ekki því Haiden sækir tvö sig í teignum. Portúgalar kusu að brjóta ekki þegar bónusnum var náð. Frábær 81-76 sigur Hauka staðreynd. Haiden Palmer tók þetta í sínar hendur í lokin og endaði með 24 mikilvæg stig.

Hvað geta Haukar haft með sér í leikinn ytra

 Sportiva liðið er stórt, vel skipulagt og spilar harðan varnarleik. Leikmenn liðsins eru þó óviljugir til að hjálpa mikið frá sínum mönnum og lykillinn að sigri Hauka lá í því að Haukastúlkur, Haiden, Tinna og Helena gátu reglulega unnið sinn varnarmann 1-1 einn, þótt það tæki stundum óþægilega langan tíma.

Þá sáust engin varnarafbrigði í leiknum í kvöld og ég veit að Haukar geta sett upp svæðisvarnarafbrigði sem loka teignum betur en Sportiva skoraði 90% stiga sinna við hringinn. Á móti þá er ólíklegt að þær portúgölsku hitti jafnömurlega utan þriggja stiga línunnar á heimavelli.

Haukar notuðu ellefu leikmenn sem bæði frábært og vitnisburður um breiddina í þessu liði. Haukastúlkur voru samt sem áður heppnar að missa aðeins Helenu út af með fimm villur þegar lítið var eftir. Þær voru með þrjár aðrar á fjórum villum og Haiden með þrjár.

Fimm stiga forskot í útileikinn er ekki mikið og þurfa þjálfarar Hauka að kreista enn meiri orku út úr liðinu á Azor eyjum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Jóhannes Albert

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -