Þann 30. september næstkomandi fer Íslandsmótið í Stinger fram í Hertz Hellinum í Breiðholti en þetta er annað árið í röð sem mótið fer fram. Þátttökugjald í mótinu er kr. 500,- sem hefst stundvíslega kl. 15:00. Karfan.is hefur fregnir af því að liðsmenn Hauka b úr Hafnarfirði muni fjölmenna í mótið og skorar á önnur lið að mæta saman.
Í fyrra tóku 30 manns þátt í keppninni en búist er við að töluvert fleiri taki þátt þetta árið enda titillinn eftirsóttur og jafnvel auðsóttur ef út í það er farið þar sem þátttaka í Stinger krefst þess síður en svo að þátttakendur séu afreksmenn eða íþróttamenn af öðrum toga. Mótið er opið öllum, sportistum, anti-sportistum og öllum þar á milli.
Þá er okkur bæði ljúft og skylt að greina frá því að sigurvegarar í mótinu, þ.e. þrjú efstu sætin verða leyst út með skemmtilegum vinningum.
Mættu í Hertz Hellinn þann 30. september næstkomandi, ert þú næsti Íslandsmeistarinn í Stinger?