Hattarmenn sem leika í 1. deildinni í vetur eru í óðaönn að manna lið sitt. Þeir hafa nú fengið til sín þrjá nýja leikmenn, einn kana og tvo Íslendinga.Bandaríski leikmaðurinn heitir Kevin Jolley og kom til Njarðvíkur í vor en náði aldrei að leika með þeim þar sem pappírsvinnan gekk ekki upp.
Íslendingar eru þeir Ágúst Dearborn sem er uppalinn í Njarðvík en hefur einnig leikið með Grindavík og Þór Þ. og þá fá þeir Davíð Arnar Ragnarsson sem leikið hefur með Tindastól og Ármanni.
Karfan.is heyrði í Kevin Jolley og spurði afhverju hann hafi komið til Íslands aftur.
„Ég valdi Ísland því ég varð ástfanginn af landinu þegar ég kom í vor. Mér var sagt að Höttur væri að fá ungan þjálfara, ég spjallaði við hann og sá að við höfðum sömu markmið. Fólkið hér er mjög vingjarnlegt og allir það að allir tali ensku skiptir máli. Auk þess er landið mjög fallegt svo ekki sé minnst á konurnar“ segir hann brosandi.
Hverjar eru væntingar þínar fyrir vetrinum?
„Ég vil að við berjumst í hverjum leik, förum í hvern leik til að gera okkar besta. Ég veit að við erum með ungt lið en Björn þjálfari vinnu hörðum höndum í því á hverjum degi að gera okkur betri.“
En hvar hefur þú verið að spila fram að þessu?
„Ég hef komið víða við á mínum stutta fjögurra ára ferli, tvisvar í Líbanon, tvisvar í Portúgal, Mexíkó, Jórdaníu, Sýrlandi og Þýskalandi en ég vona að Ísland verði mitt heimili næstu árin.“