spot_img
HomeFréttirHattarmenn með tvö stig heim úr Ólafssal - Heimamenn hefðu ekki hitt...

Hattarmenn með tvö stig heim úr Ólafssal – Heimamenn hefðu ekki hitt belju þó þeir héldu í halann á henni

Höttur lagði Hauka í Ólafssal í kvöld í fyrstu umferð Bónus deildar karla, 80-108.

Fyrir leik

Gengi liðanna á síðustu leiktíð var nokkuð ólíkt þó ekki hafi munað miklu á þeim í töflunni. Höttur endaði í 8. sæti deildarinnar og tryggði sig því í fyrsta skipti í úrslitakeppni deildarinnar. Haukar aftur á móti féllu niður í 10. sætið eftir að hafa gert afar vel sem nýliðar í deildinni tímabilið á undan þar sem þeir voru í 3. sæti.

Báðum liðum var spáð frekar slöppu gengi fyrir þetta komandi tímabil. Haukum öllu verra, falli, en Hetti þar rétt fyrir ofan.

Gangur leiks

Heimamenn í Haukum byrjuðu leik kvöldsins betur og eru skrefinu á undan vel inn í fyrsta leikhlutann. Hattarmenn vakna þó um miðbygg hlutans, vinna forskotið niður og eru sjálfir með 7 stiga forystu að fjórðungnum loknum, 17-24. Gestirnir ná svo enn að bæta í undir lok fyrri hálfleiksins. Haukar gera þó ágætlega að missa þá ekki lengra frá sér en raun bar vitni, munurinn 12 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-48.

Stigahæstur fyrir Hauka í fyrri hálfleiknum var Tyson Jolly með 10 stig á meðan Obie Trotter var kominn með 12 stig fyrir Hött.

Haukar hóta áhlaupi í byrjun seinni hálfleiksins, en missa gestina aftur, og enn lengra, frá sér í beinu framhaldi í byrjun seinni hálfleiksins. Munurinn 24 stig fyrir lokaleikhlutann, 52-76. Leikurinn nánast búinn á þessum tímapunkti. Fullnaðarsigur hers Viðars Arnar að austan staðreynd og aðeins tímaspursmál hvenær þjálfara færu að hleypa leikmönnum neðst af bekknum inn í leikinn. Niðurstaðan að lokum gífurlega öruggur sigur Hattar, 80-108.

Kjarninn

Eftir nokkuð sterka byrjun var eins og allur vindur væri úr heimamönnum í Haukum. Sóknarlega voru þeir ragir og á varnarhelmingi vallarins héldu fæstir þeirra manni sínum fyrir framan sig. Einnig munaði miklu á skotnýtingu liðsins fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum, en segja má að það hafi verið banabiti Hauka í leiknum. Nýting Hattar í betra lagi á meðan Haukar virtust ekki geta sett nein opin skot niður úr djúpinu. Virkilega sterk byrjun hjá Hetti að hefja tímabilið á að ná í tvö stig til liðs sem spáð var á svipuðum stað í deildinni í vetur.

Hvað svo?

Höttur á leik næst heima á Egilsstöðum komandi fimmtudag 10. október gegn Keflavík, en Haukar laugardaginn 12. október í Ólafssal gegn Grindavík.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -