Háspenna lífshætta er KR lagði Þrótt á Meistaravöllum

KR lagði Þrótt Vogum í spennuleik á Meistaravöllum í fyrstu deild karla í kvöld, 99-98. KR er því enn í efsta sæti deildarinnar með fimm sigra í jafnmörgum leikjum á meðan að Þróttur er með þrjá sigra og tvö töp eftir jafn marga leiki.

Það voru gestirnir úr Vogum sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Snemma leiks náðu þeir að skapa sér smá forystu og voru 8 stigum yfir við lok fyrsta leikhluta, 22-30. Undir lok hálfleiksins nær Þróttur svo að verjast góðu áhlaupi heimamanna og eru enn skrefinu á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-53.

Stigahæstur fyrir gestina í þessum fyrri hálfleik var fyrrum leikmaður KR Arnaldur Grímsson með 22 stig á meðan að Dani Koljanin var kominn með 10 stig fyrir heimamenn.

Þróttur gerir ansi vel í upphafi seinni hálfleiksins og halda góðum tökum á leiknum. Stjörnuleikur Arnaldar heldur áfram og er hann kominn með 29 stig við lok þess þriðja, þar sem hans menn leið enn, 73-82. KR gerir ágætlega í lokaleikhlutanum, ná hægt og rólega að vinna niður forystu Þróttar og eru aðeins 2 stigum undir þegar 3 mínútur eru til leiksloka, 90-92. Í brakinu nær KR svo yfirhöndinni og með vítum frá Adama Darboe á lokasekúndunum nær KR að komast 4 stigum yfir, 99-95. Í framhaldinu fara þeir þó nokkuð illa að ráði sínu og nær Kristján Fannar Ingólfsson að setja þrist og er munurinn aðeins stig þegar 48 sekúndur eru eftir. KR missir boltann í framhaldinu og Þróttur fær kjörið tækifæri til þess að vinna leikinn þegar klukkan er að renna út, en eins og sjá má hér fyrir neðan missa þeir boltann og KR sigrar að lokum með minnsta mun mögulegum, 99-98.

Fyrir KR var Adama Darboe atkvæðamestur með 22 stig, 6 fráköst á meðan að Arnaldur Grímsson var bestur í liði Þróttar með 29 stig og 8 fráköst.

Tölfræði leiks