spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHáspenna lífshætta er ÍR hirti sigurinn af Sköllum á lokasprettinum

Háspenna lífshætta er ÍR hirti sigurinn af Sköllum á lokasprettinum

Annað skiptið í þessari viku mættust ÍR og Skallagrímur í Hertz hellinum. Í þetta skiptið í Dominos deild karla og er óhætt að segja að hasarinn hafi verið gríðarlegur.

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

Ótrúlegar lokamínútur

Þegar minna en átta mínútur voru eftir af leiknum náðu Borgnesingar 11 stiga forystu og voru með leikinn sínum höndum. Heimamenn gáfu það ekki eftir, komu sér í leikinn fljótt og upphófust æsispennandi lokasprettur.

Kevin Capers kom ÍR tveimur stigum yfir þegar nærri mínúta var eftir en Domogoj Samac svaraði snöggt með þriggja stiga körfu og kom Borgnesingum yfir þegar 57 sekúndur voru eftir 94-95. Sókn ÍR fer forgörðum og Skallagrímur náði boltanum á ný, einu stigi yfir og 40 sekúndur á klukkunni.

Sókn Skallagríms var illa framkvæmd en Matej Buovac hélt boltanum þangað til 8 sekúndur voru eftir af klukkunni og ætlaði þá að körfunni. Capers fiskaði hinsvegar ruðning á Matej þegar 26 sekúndur voru eftir af leiknum. Risastór dómur sem Borgnesingar voru gríðarlega ósáttir við. Robinson fær tvö víti hinu megin og setur bæði, svellkaldur. Lokasókn Skallagríms var örvæntingafull og vel lesin af ÍR vörninni og varð að engu. Lokastaðan 96-95 fyrir ÍR.

ÍR hefndi fyrir rán með ráni

Leikurinn var sannarlega í höndunum á Skallagrím þegar lítið var eftir en féll ekki með þeim í kvöld. Borgnesingar geta verið ansi sárir með niðurstöðu kvöldsins enda féll lítið með liðinu í lokin. Í raun má segja að Borgnesingar hafi verið rændir sigrinum.

Af því tilefni má rifja upp fyrri leik þessara liða í deildinni þar sem Skallagrímur sneri við 10 stiga mun á ævintýralega stuttum tíma. Þar voru ÍRingar sannarlega rændir og því má segja að liðið hafi svarað í sömu mynt í kvöld.

Tilviljunarkennt hjá svarthvítum

Það er ljóst að allir sem koma að leiknum eru í því að heilindum, það er þó engin undanskilin gagnrýni. Frammistaða dómara leiksins var arfaslök, línan sem dæmt var eftir var skrikjótt og óljós. Bæði lið fengu að finna fyrir skrýtnum dómum og þá sérstaklega í fjórða leikhluta þegar spennustigið var hátt.

Mikilvægi Sigga

Sigurður Þorsteinsson byrjaði leik kvöldsins vel en fékk tvær villur á sömu sekúndu í öðrum leikhluta er hann fékk villu og tæknivillu í kjölfarið. Við það var hann kominn með fjórar villur og sat í nærri tuttugu mínútur á bekknum. Hann sneri svo aftur í fjórða leikhluta og gjörsamlega stjórnaði öllu inní teignum á báðum endum vallarins, sem urðu algjör þáttaskil í leiknum. Eftir að hafa valdið vonbrigðum á síðasta tímabili er Siggi heldur betur að hljóta uppreisn æru og að sýna hvað í honum býr.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtöl eftir leik: 

Fréttir
- Auglýsing -