spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHáspenna lífshætta er Blikar lögðu KR í tvíframlengdum naglbít

Háspenna lífshætta er Blikar lögðu KR í tvíframlengdum naglbít

Breiðablik lagði KR í tvíframlengdum leik í kvöld í 2. umferð Subway deildar karla, 136-133. Eftir leikinn eru Blikar með tvo sigra úr fyrstu tveimur umferðunum á meðan að KR hefur tapað báðum sínum leikjum.

Gangur leiks

Leikurinn er í miklu jafnvægi á fyrstu mínútunum. Liðin skiptast á snöggum áhlaupum, en það voru Blikar sem voru skrefinu á undan að loknum fyrsta leikhluta, 29-25. Líkt og tölurnar gefa til kynna var lítið um varnir í þessum fyrri hálfleik liðsins. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Breiðablik að byggja aðeins á forystu sína og eru 13 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 61-48.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Danero Thomas með 20 stig á meðan að Jprdan Semple var kominn með 16 stig fyrir KR.

Blikar mæta jafnvel enn betur til leiks inn í seinni hálfleikinn heldur en þeir enduðu þann fyrri. Ná mest 22 stiga forystu í þriðja leikhlutanum, en KR nær að klóra í bakkann í lokin og er munurinn því aðeins 16 stig fyrir þann fjórða, 93-77. KR heldur þessu alveg í leik í upphafi lokaleikhlutans. Munurinn aðeins 7 stig eftir þrist frá Degi Kár Jónssyni þegar að um 4 mínútur voru eftir af leiknum og þegar að 2 mínútur eru eftir er hann aðeins 4 stig, 105-101. Þeir ná svo að lokum að jafna leikinn í stöðunni 105-105 þegar innan við mínúta er eftir. Bæði lið fá góð tækifæri til þess að klára leikinn, en allt kemur fyrir ekki og leikurinn fer í framlengingu.

Blikar byrja framlenginguna betur, en KR eru fljótir að svara. KR kemst svo loks yfir þegar um 2 mínútur eru eftir af leiknum 113-116 með þristi frá Roberts Freimanis. Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá báðum liðum á þessum tímapunkti, þar sem áður hafði Sigurður Pétursson fengið sína fimmtu villu hjá Blikum og þegar rúm mínúta var eftir fékk 45 stiga maður KR Jordan semple sína fimmtu villu. Með tæpar 19 sekúndur eftir fær KR tækifæri til þess að vinna leikinn í stöðunni 117-116. Dagur Kár uppsker tvö víti, setur annað og leikurinn fer í aðra framlengingu.

Án Jordan var seinni framlengingin hálfgert bras fyrir KR á báðum endum vallarins. Fer svo að lokum að Blikar sigra hana og leikinn nokkuð þægilega miðað við hvað áður hafði á gengið 136-133.

Atkvæðamestir

Jordan Semple var bestur í liði KR í kvöld með 43 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Honum næstur var Dagur Kár Jónsson með 35 stig og 10 stoðsendingar.

Fyrir Blika var það Everage Lee Richardson sem dró vagninn með 34 stigum, 8 fráköstum, 8 stoðsendingum og 6 stolnum boltum. Þá bætti Danero Thomas við 29 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir slétta viku, fimmtudaginn 20. október, en þá fær KR lið Hauka í heimsókn á Meistaravelli á meðan að Blikar heimsækja Íslandsmeistara Vals í Origo Höllina.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt/Hafsteinn Snær)

Fréttir
- Auglýsing -