spot_img
HomeFréttirHáspenna í Smáranum en KR fór heim með vinninginn

Háspenna í Smáranum en KR fór heim með vinninginn

Blikastúlkur fengu KR-inga í heimsókn í Smárann í kvöld.  Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið tvo leiki en tapað einum, fyrirfram var því búist við jafnri viðureign sem varð og raunin.

 

Framan af fyrsta leikhluta einkenndist leikurinn fyrst og fremst af töpuðum boltum en jafnt var á nánast öllum tölum þangað til staðan var 13-13 og 3 mínútur eftir af leikhlutanum.  Þá náðu KR-ingar að klára leikhlutann sterkt, skoruðu 8 stig gegn engu stigi heimastúlkna og staðan því 13-21 að honum loknum.

 

Blikastúlkur fóru greinilega vel yfir sín mál í leikhlutaskiptunum því Beggó náði að brjóta ísinn með þriggja stiga körfu og virtist staðráðin í að draga sínar stúlkur aftur inn í leikinn og skoraði 10 af fyrstu 12 stigum liðsins í leikhlutanum og staðan orðin jöfn 25-25.  KR-ingar vöknuðu þá aftur til lífsins og Þorbjörg Andrea skoraði 5 stig í röð.  Þegar liðin héldu til leikhlés var staðan 28-32 KR í vil.

 

KR stúlkur héldu áfram undirtökunum í þriðja leikhluta en náðu alrei að hrista Blika af sér, mest náðu þær 8 stiga forskoti.  Að leikhlutanum loknum var staðan 45-52.

 

Vesturbæingar byrjuðu lokaleikhlutann vel og bættu hægt og rólega við forskotið, þegar 4 mínútur liðu leiks sett Perla niður vítaskot og kom KR í 12 stiga forskot, 52-64.   Þá hefðu Blikar getað lagt árar í bát en það gerðu þær svo sannarlega ekki heldur lokuðu vörninni og byrjuðu að saxa niður forskotið.  Þegar rétt rúm mínúta lifði leiks minnkaði Aníta muninn í 3 stig, 61-64.  Bæði lið fengu góð tækifæri til að skora en Guðrún Gróa skoraði loks úr vítaskoti fyrir KR, 61-65.  Aníta svaraði með 2 vítum, 63-65 og Breiðablik fékk lokasókn leiksins.  Beggó fékk ágætis færi, langur tvistur sem geigaði en Elín Sóley tók sóknarfrákastið, erfitt skot hennar fór þó yfir hringinn og beint í hendurnar á Isabellu sem náði að kasta upp lokaskoti en það geigaði líkt og hin svo KR-ingar fögnuðu sigri.

 

Eftir erfiða byrjun þar sem bæði lið gerðu sig seka um allt of mörg mistök varð úr spennandi leikur og hin ágætasta skemmtun.  Hjá Breiðablik var Aníta Rún stigahæst með 20 stig, Beggó skoraði 14, Telma Lind skoraði 10 og Isabella skoraði 6 stig, tók 13 fráköst og varði heil 5 skot.  Hjá KR var Guðrún Gróa atkvæðamikil, skoraði 19 stig og tók 9 fráköst, Þorbjörg Andrea og Rannveig skoruðu 11 stig hvor og Blikinn fyrrverandi, Kristbjörg Pálsdóttir skoraði 10.

 

Tölfræði leiks

 

Texti:  Baldur Már Stefánsson

Myndasafn:  Tomasz Kolodziejski

Fréttir
- Auglýsing -