Það var stál í stál þegar nágrannaliðin Haukar og Stjarnan öttu kappi í æsispennandi leik að Ásvöllum í kvöld. Leikurinn var jafn nánast frá upphafi þó Haukakonur væru sterkari í upphafi leiks og leiddu eftir 1. leikhluta 21-14. Þær héldu forystunni í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 33-26. Stjörnukonur virtust hálf vanstilltar, vörnin hélt illa, sóknarleikurinn stirður og skotvalið slæmt. Þær byrjuðu hins vegar seinni hálfleikinn af miklum kraft, komust fljótlega yfir og virtust ætla að taka yfirhöndina. Haukar stóðust þó áhlaupið og hleyptu Stjörnunni aldrei langt fram úr sér. Síðustu mínúturnar voru svo æsispennandi þar sem bæði lið hefðu getað tryggt sér sigurinn. Bryndís Hreinsdóttir tók þrist í blálok leiksins sem hefði tryggt Stjörnunni sigur en ofaní vildi boltinn ekki, heldur endaði í fanginu á Mitchell leikmanni Hauka og sigur þeirra var í höfn.
Hetjan
Hetja Haukakvenna í kvöld var Sólrún Inga Gísladóttir. Hún fór fyrir sínu liði þegar mest á reyndi og sýndi mikinn styrk undir lokin. Hún skoraði 24 stig og tók 12 fráköst.
Kjarninn
Leikurinn í kvöld var kannski ekki sá formfegursti sem leikinn hefur verið, töluvert af mistökum og bæði lið fóru oft illa með gullin tækifæri til að skora. Skemmtanagildið vantaði þó ekki því leikurinn var hnífjafn og úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndunum. Það er ljóst að Haukastelpur ætla síður en svo að vera uppfyllingarefni í deildinni og koma áreiðanlega til með að veita keppinautum sínum harða mótspyrnu eins og sást í kvöld. Í leik Stjörnunnar virðist vanta meiri stöðugleika enda margir nýjir leikmenn og nýr þjálfari. Það verður því spennandi að fylgjast með hvernig leikur liðsins mun þróast þegar líður á mótið, leikmenn læra betur inn á hver annan og finna sitt hlutverk.
Umfjöllun / Guðrún Gróa