spot_img

Hasar í Holtinu

Stórveldi 2. Deildarinnar mættust í Breiðholtinu í gærkvöldi

Stórleikur 4 umferðarinnar í annarri deildinni fór fram í kvöld er lið Leiknis og Vestra mættust. Fjöldi áhorfanda mætti í Austurbergið til að styðja sitt lið og stemningin góð á pöllunum allan leikinn. Fyrir leikinn voru bæði lið búin að vinna alla sína leiki og ljóst að þau ætli sér stóra hluti í vetur og stefnir allt í mjög spennandi tímabil í annarri deildinni. 

Líkt og svo oft áður hófu Leiknismenn leikinn af krafti og settu fyrstu körfur leiksins. Vestri svaraði þó fljótt fyrir sig með 15-4 áhlaupi og komu sér yfir. Reinis Vilkes var illviðráðanlegur í liði Vestra og var kominn með 9 stig strax í fyrsta fjórðung. Hjá Leikni var Tómas Tómasson atkvæðamestur í fjórðungnum og setti 8 stig, þar af 2 þrista. Að loknum leikhlutanum var staðan 18-16 Vestra í vil. 

Annar leikhluti hófst svo á mjög sterkum fléttum frá Leikni, annars vegar 16-5 áhlaupi og svo 9-0 kafla. Með þeim náðu Leiknismenn ágætis forystu en alls settu 9 leikmenn liðsins stig á töfluna í leikhlutanum sem verður að teljast ansi gott. Góðar innkomur af bekknum gerðu gæfumuninn í leikhlutanum og réðu Leiknismenn lögum og lofum. Vestramenn náðu þó aftur að bíta eilítið frá sér fyrir lok leikhlutans og var staðan að loknum fyrri hálfleik 45-31 fyrir Leikni. 

Vestri hóf síðari hálfeikinn á því að ná nokkrum stoppum í vörninni og setja fyrstu körfur hálfleiksins og minnkuðu muninn niður í 10 stig. Það þurfti ekki meira til til að trekkja Leiknisvélina í gang: Þristar frá Þresti og Ingva og sterkt gegnumbroti frá Elvari gaf ‚Sjötta Manninum‘, stuðningsmannasveit Leiknismanna, ríka ástæðu til að fagna á pöllunum. Ætlaði allt síðan um koll að keyra þegar að öflugasti maður Vestra, Reinis, fékk á sig dæmt skref fljótlega eftir þessa atburðarás – mótmælti þjálfari Vestri þessum dómi og enn meir þegar að þjálfari Leiknismanna benti honum á að Reinis sjálfur hefði viðurkennt skrefið – og fékk við mótmælin dæmda á sig tæknivillu. Eftir þessa rispu voru Leiknismenn komnir í 18 stiga forystu og stefndi allt í nokkuð öruggan sigur heimamanna á þeim tímapunkti. Enn og aftur sýndu Vestri sanna vestfirska þrautseigju: Reinis Vilkes setti 2 snögga þrista og í framhaldinu datt Hjálmar Jakobsson í gang með fjórum körfum í röð gegn einungis einni frá Leikni. Með þessari fléttu frá Vestra var munurinn að loknum þremur leikhlutum kominn niður í 5 stig og allt í járnum.

Leiknir hóf fjórða og síðasta leikhlutann á góðum 10-2 kafla og enn eina ferðina virtist sem þeir ætluðu að sigla sigrinum örugglega heim með 13 stiga forystu og eingöngu um 6 mínútur eftir af leiknum. Vestri svaraði aftur á móti með 13-2 áhlaupi og komu muninum niður í 2 stig – 71-69 fyrir Leikni og minna en mínúta eftir. Vestri brutu þá á Leikni og setti Einar Bjarni, fyrirliði Leiknis bæði vítin niður og kom þar með muninum aftur upp í 4 stig. Reinis Vilkes náði ágætis gegnumbroti í lokasókn Vestra, en mætti þar honum Djamma sem varði sniðskot hans langt út á völl og í hendur Leiknis. Sjálfur var Djammi svo manna fyrstur fram og setti örugg 2 stig niður á blokkinni og tryggði Leiknismönnum sigur 75-69. 

Tölfræðin talar sínu máli;

Nú þegar að Greiningadeildin er búin að leggjast yfir gögnin eru nokkrir hlutir sem liggja í augum uppi:

  • • Hinn umtalaði Lurkabolti Leiknis heldur áfram á sigurbraut: liðið taplaust á tímabilinu og í þessum leik héldu þeir feiknarsterku liði Vestra í 20% lægri stigafjölda en í fyrri leikjum á tímabilinu.
  • • Í öllum leikjum Leiknis á tímabilinu hafa 9 eða fleiri einstaklingar komist á blað, og því bersýnilegt að um mikla breidd er að ræða.
  • • Reinis Vilkes heldur áfram að hrella mann og annan í 2. Deildinni og er ljóst að um feiknarsterkan körfuboltaspilara sé að ræða.
  • • Ef að satt reynist að lið Leiknis hafi verið dæmt sér í hag vítaskot eftir samskipti þjálfara Vestra og hjá Lásinum, þjálfara Leiknis, má segja að Lásinn hafi komist á blað án þess að hafa spilað – sem er sennilega enn eitt Per30 metið hjá þjálfaranum.

Stigaskor liða; 

Leiknir; Tommi 15, Þröstur 12, Djammi og Halli 9, Elvar 8, Einar og Guðjón 7, Ingvi 5 og Arnar Kári 3. 

Vestri; Reinis Vilkes 31, Hjálmar 17, Gunnlaugur og Magnús 5, Elmar og Egill 4 og James Parilla 3. 

Staðan í deildinni

Fréttir
- Auglýsing -