Fjölnir sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis að félagið harmaði fréttaflutning skemmtiþáttarins Körfuboltakvölds er varðaði málefni lykilleikmanns þeirra í Subway deild kvenna, Raquel Laneiro. Tilkynninguna er hægt að lesa hér fyrir neðan, en meðal annars tekið fram að rangt hafi verið að leikmaðurinn hafi einhliða staðið í því að leita sér að öðru liði nú áður en leikmannaglugginn lokaði. Þá segir félagið að Raquel sé frábær leikmaður sem alltaf hafi virt samninga sína við félagið.
Tilkynning Fjölnis:
“Körfuknattleiksdeild Fjölnis harmar fréttaflutning um leikmann félagsins Raquel Laneiro á Körfuboltakvöldi í gær miðvikudaginn 31. janúar. Raquel hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framúrskarandi spilamennsku á tímabilinu, og því er ekki skrýtið að fleira en eitt lið hafi sýnt henni áhuga í félagaskiptaglugganum. Fréttaflutningur þess efnis að þar hafi verið um að ræða einhliða umleitanir komnar frá henni er rangur, og liðin sem þarna voru að ræða við samningsbundinn leikmann og umboðsmann hennar vita það best sjálf. Við í Fjölni erum mjög ánægð með að hafa Raquel í okkar röðum, hún er frábær leikmaður og manneskja og hefur ávallt virt sína samninga við félagið.”