Morgunblaðið greinir frá því í dag að bandarísku leikmennirnir Lele Hardy og Shanae Baker-Brice verði ekki með Njarðvíkingum í Iceland Express deild kvenna í kvöld þegar liðið tekur á móti Fjölni.
Í frétt Morgunblaðsins á mbl.is segir:
Njarðvík verður án bandarísku leikmannanna, Shanae Baker og Lele Hardy, þegar liðið mætir Fjölni í Iceland Expressdeild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Þær eru nú staddar í Bandaríkjunum en að sögn Sverris Þórs Sverrissonar, þjálfara liðsins, fór eitthvað úrskeiðis í pappírsvinnunni þegar kom að því að framlengja dvöl þeirra hérlendis.
Ekki liggur fyrir hvort búið verði að kippa þessu í liðinn fyrir næstu helgi en þá mætir Njarðvík liði Vals á útivelli áður en deildin fer í jólafrí. Svo gæti því farið að þær Baker og Hardy, sem hafa verið mjög atkvæðamiklar, missi af tveimur deildaleikjum. „Þær þurftu að fara úr landi í síðustu viku og verða ekki með á morgun (í kvöld) og óvíst er hvort þær verða komnar fyrir leikinn á móti Val. Þær áttu að koma með vélinni í nótt en svo kom í ljós að málið var ekki frágengið og við verðum því með alíslenskt lið í kvöld,“ sagði Sverrir við Morgunblaðið en lið Njarðvíkur er í 2. sæti deildarinnar.