spot_img
HomeFréttirHannes spáir Indiana og Oklahoma í úrslit

Hannes spáir Indiana og Oklahoma í úrslit

Jæja spádómsgáfan mín reyndist ekki mikil í Austurdeildinni enda kannski pínulítið lituð óskhyggju í viðureignum Miami og Nets og Indiana og Washington.
 
 
Í undanúrslitum deildanna var spá mín sú að Nets ynnu Heat (ég spáði 4-3) og Wizards ynnu Pacers (ég spáði 4-2) austanmegin kolröng því Miami vann í fimm leikjum og Indiana í sex og því mætast Miami Heat og Indiana Pacers í úrslitum Austurdeildarinnar. Spá mín vestanmegin var hinsvegar rétt m. t. t. sigurvegara og þar unnu San Antonio Spurs lið Portland Trail Blazers (ég spáði 4-3) næsta auðveldlega í fimm leikkjum og Oklahoma City Thunder lagði Los Angeles Clippers í sex leikjum (ég spáði 4-3).
 
Úrslit Austurstrandar:
Indiana Pacers gegn Miami Heat (2-2 í vetur)
 
Indiana vann að því leynt og ljóst að ná heimavallarréttinum gegn Miami í úrslitum Austurstrandarinnar í allan vetur eftir tap í oddaleik gegn Miami í úrslitum Austurdeildarinnar í fyrra í Miami og náðu besta árangri liða í deildinni. Hvort það dugar þeim er hins vegar stór spurning því liðið hefur leikið undarlega illa seinni hluta tímabilsins og virðast leikmannaskiptin þeirra þegar þeir skiptu Danny Granger fyrir Evan Turner hafa haft slæm áhrif á liðið. Í úrslitakeppninni lenti liðið í miklu basli með Atlanta Hawks í átta liða úrslitum og í undanúrslitum leit um tíma út fyrir að Washington Wizards gæti unnið Indiana, en Pacers náðu að knýja fram sigur gegn Hawks og Wizards með því að eiga góða leiki inn á milli og þegar á reyndi stigu sérstaklega David West og Paul George upp og kláruði leikina fyrir þá. Vörnin hefur verið aðalsmerki liðsins í allan vetur og ekki hægt að segja að stigaskor leikja sem Indiana tekur þátt í sé hátt. Roy Hibbert verður lykilmaður í liðinu ef liðið á að leggja MIami af velli því ef einhver veikleiki er í Miami liðinu þá er það inni í teig. Það virðist alveg vonlaust að giska á hvaða Indiana lið mætir til leiks – liðið með mikla baráttu sem spilar langar sóknir þar sem boltinn gengur á milli manna og allir leggja á sig í vörn – eða liðið þar sem samherjar virðast ekki treysta á hvorn annan og enginn spilar vörn. Hibbert getur ekki leyft sér að vera með fleiri leiki þar sem hann skorar ekki stig og tekur ekki fráköst – þá vinnur Miami einvígið léttilega. TIl að Indiana vinni þessa seríu verða West, George og Hibbert að eiga góða leiki og baráttan verður að vera til staðar.
 
Miami Heat hefur komist auðveldlega í gegnum úrslitakeppnina til þessa og lögðu Bobcats (Charlotte Hornets á næstu leiktíð) 4-0 og Brooklyn Nets 4-1. Gegn Charlotte mætti Ray Allen ekki til leiks en gegn Brooklyn sýndi hann eina ferðina enn hversu frábær skotmaður hann er og lagði grunninn að sigrinum ásamt besta leikmanni NBA deildarinnar síðastliðin ár – LeBron James – sem sýndi enn og aftur hversu fjölhæfur leikmaður hann er. Dwyane Wade virðist vera að komast í betra og betra form eftir langvarandi hnémeiðsli, Bosh er alltaf stabíll og leikmenn eins og Battier, Anderson, Cole og Lewis hafa náð að blómstra stöku sinnum sem hefur dugað Miami til þessa. Liðið stendur þó og fellur með LeBron og ef hann er með nálægt þrefaldri tvennu í leik þá ætti Miami að vinna þessa seríu nokkuð örugglega.
 
Leikir liðanna hafa verið nokkuð jafnir í vetur og því hugsanlegt að um langa seríu verði að ræða (sem við körfuboltaáhugamenn vonum að sjálfsögðu). Ef leikmenn Indiana Pacers spila eins og í úpphafi tímabilsins þá kæmi mér ekki á óvart þótt þeir myndu ná að komast í NBA úrslitin en miðað við spilamennski liðanna í úrslitakeppninni til þessa þá ætti Miami að ná að klára þessa seríu. Fyrsta viðureign Miami og Indiana er í dag!
 
Mín spá
Indiana Pacers mæta til leiks og vinna í dramatískum oddaleik í Indiana eftir tvær framlengingar
 
Úrslit Vesturstrandar:
San Antonio Spurs gegn Oklahoma City Thunder (0-4 í vetur)
 
San Antonio Spurs hafa spilað liða best í úrslitakeppninni til þessa að mínu mati og hefur verið hreint stórkostlegt að horfa á liðið spila, skiptir engu máli hver er inná vellinum hverju sinni allt gengur eins og vel spurð diesel vél. Liðið lenti í smá basli með Dallas en sýndi svo mátt sinn og meginn í lokaleiknum þar sem Tony Parker fór á kostum. Parker var svo stórkostlegur í seríunni gegn Portland og leiddi liðið áfram, spilaði síðan ekki nema hluta af síðasta leiknum vegna meiðsla sem hann varð fyrir en áfram mallaði vélin eins og ekkert hefði í skorist og Spurs unnu Trail Blazers auðveldlega í fimm leikjum. Liðið er náttúrulega hokið af reynslu með þá Parker, Tim Duncan og Manu Ginobili sem helstu stjörnur en leikmenn eins og Kawhi Leonard, Danny Green, Tiago Spitter og Boris Diaw hafa allir lagt sitt á vogarskálarnar og erfitt að sjá þá tapa sjö leikja seríu. Hinsvegar má ekki gelyma að Parker meiddist í lokaleiknum gegn Portland og ef hann getur ekki spilað á fullu þá getur það haft eitthvað að segja.
 
Oklahoma City Tunder lenti enn og aftur í vandræðum gegn Memphis en knúði fram sigur í oddaleik í fyrstu umferð og lagði síðan Clippers í sex leikjum í þeirri annarri (reyndar vilja sumir meina að að hafi verið eftir dómaramistök í leik fimm) í skemmtilegri viðureign. Kevin Durant sem var á dögunum valinn mikilvægasti leikmaður NBA keppnistímabilsins hefur verið að spila frábærlega sem og Russell Westbrook. Serge Ibaka hefur einnig verið að spila vel en nýbúið er að tilkynna að hann verði ekki meira með vegna meiðsla. Þetta er svakalegur biti fyrir Thunder en menn muna eflaust enn þegar Westbrook meiddist í fyrra og Thunder tapaði fyrir Memphis. Nú verða aðrir leikmenn að stíga upp eins og Reggie Jackson, Kendrick Perkins og Nick Collison auk nýliðans Steve Adams sem hefur átt sín augnablik í vetur. Meiðsli Ibaka minnka þó líkur á sigri Thunder.
 
Oklahoma hefur gengið vel með San Antonio í vetur og unnu alla leikina gegn þeim og í raun hafa þeir nánast verið ósigrandi gegn Spurs því Tunder hefur unnið 10 af síðustu 12 leikjum liðanna. Erfitt getur því verið að spá um úrslit þessarar seríu vegna (væntanlegrar) fjarveru Ibaka og meiðsla Parkers en til þess er jú leikurinn gerðu ekki væri gaman að vita fyrirfram hvernig leikirnir fara! Ef maður ætti að látta tilfinningarnar ráða þá yrði náttúrulega stórkostlegt að sjá Duncan, Parker og Pop loka kaflanum með titli en einnig yrði gaman að sjá Durant og Westbrook uppskera titil!
 
Mín spá
Oklahoma City Thunder vinnur í sex leikjum og Durant setur stigamet!
 
Samkvæmt þessu þá er það spá mín að Indiana Pacers og Oklahoma City Thunder spili til úrslita í NBA keppninni í ár!
 
Hannes Birgir Hjálmarsson
  
Mynd/ Gangi spá Hannesar eftir fara Westbrook og félagar í úrslit NBA og mæta þar Indiana.
 
Fréttir
- Auglýsing -