spot_img
HomeFréttirHanna leikur fyrir háskóla í Mekka körfuboltans "Algjörlega sturluð upplifun"

Hanna leikur fyrir háskóla í Mekka körfuboltans “Algjörlega sturluð upplifun”

Hafnfirðingurinn Hanna Þráinsdóttir hélt vestur um haf árið 2019 til þess að ganga til liðs við Georgian Court Lions í bandaríska háskólaboltanum. Þar lék hún í þrjú tímabil áður en hún skipti yfir til New York University þar sem hún lék á síðasta tímabili.

Haukar bikarmeistarar í stúlknaflokki 2015

Hanna lék á sínum tíma upp alla yngri flokka Hauka og fyrst með meistaraflokki félagsins 17 ára gömul árið 2014, en ásat því að hafa leikið með þeim var hún einnig á mála hjá Skallagrím og svo síðast ÍR áður en hún hélt af landi brott. Þá var hún einnig á sínum tíma hluti af yngri landsliðum Íslands.

Hanna hefur verið í fínu hlutverki með þeim liðum sem hún hefur leikið með. Fyrstu þrjú tímabilin með sterku annarar deildar liði Georgian Court og svo á síðasta tímabili með enn sterkara þriðju deildar liði New York University, en þær unnu 25 leiki og töpuðu aðeins 3 á tímabilinu. Þá var Hanna fyrst íslenskra íþróttanámsmanna tilnefnd sem ,,Kona ársins“ í háskólaíþróttunum í Bandaríkjunum fyrir síðasta ár. Heiður sem verður seint leikinn eftir, en um 233 þúsund konur leika í 24 greinum innan raða NCAA sambandsins ár hvert.

Karfan hafði samband við Hönnu og spurði hana út í tímann sinn í Bandaríkjunum, hvaða áhrif háskólaárin hafi haft á hana og hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Nú ert þú búin að vera í nokkur ár úti, ertu sátt með hvað þú hefur náð að gera?

“Já, þetta er búin að vera rosaleg reynsla. Ég er mjög stolt af því sem við náðum að gera í Georgian Court, ég var fyrirliði þar í þrjú ár og hluti af því að snúa við prógramminu og ná í fyrsta skipti í sögu skólans að komast í NCAA úrslitakepnnina 2021. Ég hefði viljað ná lengra síðasta árið mitt í Georgian Court, vinna riðilinn og komast aftur í NCAA mótið, en það hafðist því miður ekki. Persónulega er ég mjög sátt, bæði innan vallar sem utan. Ég bætti mig rosalega í körfubolta, gekk vel í skólanum og tók þátt í allskonar annarri vinnu innan háskólans. Tilnefningin til konu ársins innan NCAA stendur upp úr og var rosalegur heiður og reynsla. Ég er líka stolt af því að hafa komist inn í mjög samkeppnishæft framhaldsnám í NYU, draumanámið. Ég er í allt öðruvísi hlutverki hér í körfunni, kom inn í fullskipað lið en fékk gott „role player“ hlutverk og skilaði mínu. Við komumst í átta liða úrslit í NCAA úrslitakeppninni, sem er auðvitað mjög góður árangur. Ég stefni á að vera í stærra hlutverki á næsta ári og klára háskólaferlinn með stæl. “

Hvað var erfiðast við að fara í háskóla í Bandaríkjunum?

“Erfiðast var að flytja að heiman í fyrsta skipti, og vera í lengri tíma í burtu frá fjölskyldu og vinum. Það er erfitt að missa af allskonar fjölskylduboðum og vinahittingum og þurfa að fylgjast með úr fjarlægð.”

Ert nú með reynsluna að hafa skipt um skóla úti, hver var helsti munurinn við skólana sem þú hefur verið í?

“Ég var mjög ánægð í Georgian Court, en eftir fjögur ár og útskrift lá beinast við að skipta um umhverfi. Mig langaði að fara í framhaldsnám í sterkum akademískum skóla, þjálfarinn minn í Georgian Court hvatti mig til þess og hjálpaði mér meira að segja að finna skóla og hafði samband við þjálfara. Það er mjög mikill munur á skólunum, Georgian Court er í úthverfi í New Jersey og í honum tæplega tvöþúsund nemendur. New York University er á Manhattan og nemendur eru fimmtíuþúsund talsins. Það tók mig kannski 7 mínútur að labba enda á milli á „campus“ í Georgian Court en núna tek ég lestina í skólann og á æfingu og labba um risastórt háskólasvæði sem er í miðri New York borg. Körfuboltalega séð er Georgian Court D2 skóli og NYU er D3 skóli, en ég finn engan mun á gæðunum í körfunni enda er NYU í einum af bestu riðlunum í D3. Það eru vissulega fleiri mjög miklir íþróttamenn í D2 en í D3 er lögð mun meiri áhersla á taktík. Ég er mjög ánægð að skólarnir eru svona ólíkir og þakklát að fá að upplifa bæði lítinn og stóran skóla. Það eru kostir og gallar við bæði, engin spurning.”

Hvaða áhrif hafði þetta á þig sem leikmann?

“Ég hef þróast gríðarlega sem leikmaður og manneskja. Ég hef alltaf verið dugleg að æfa og háskólaumhverfið bíður upp á rosalegan stuðning og tækifæri til þess að æfa vel og mikið og verða betri á hverjum degi. Ég er búin að bæta mig þvílíkt á hverju ári, ekki bara tæknilega heldur líka í leikskilningi, leiðtogahæfni og að skilja styrkleikana mína og veikleika og vita hvernig ég get hjálpað liðinu mínu sem best. Þetta er ótrúlega krefjandi en á sama tíma það skemmtilegasta og mest gefandi sem ég hef nokkurn tímann gert. Það jafnast ekkert á við háskólaíþróttir held ég, og bara þeir sem hafa gengið í gengum þetta skilja nákvæmlega hvað ég meina.”

Ertu sátt með hvernig ykkur gekk á þessu síðasta tímabili?

“Við komumst í átta liða úrslit í NCAA D3 úrslitakeppninni, og það er ekki hægt annað en að vera stoltur af því. Stefnan var að vinna allt dæmið og fá „national championship“ þannig að það voru samt ákveðin vonbrigði. Við stefnum á að fara alla leið á næsta ári.”

Hvernig er stemningin í New York?

“Það er rosaleg upplifun að búa, vera í skóla og spila á Manhattan, NYC. Það er alltaf eitthvað í gangi og mjög gaman að geta bara labbað eða tekið lestina á marga af frægustu stöðum heims. Ég bý 5 mínútur frá Central Park til dæmis, og þegar ég kem upp úr lestinni til að labba í skólann er Empire State byggingin beint af augum. Það er náttúrulega alltaf allt fullt af fólki, sem er stundum yfirþyrmandi, en maður venst þessum lífstíl mjög fljótt. Körfubolti er mjög stór hluti af menningu borgarinnar og algjörlega sturluð upplifun að spila fyrir háskóla hér. Það eru pikk-öpp leikir á hverju horni og íþróttahús skólans eru alltaf full af fólki sem er til í spil, þannig ég nýt þess í botn. NYU er líka mjög tengd stofnun og maður er allt í einu lentur í hringiðu iðnaðarins einhvern vegin…aðstoðarþjálfarinn minn er vinkona Sue Bird og tveir liðsfélagar mínir vinna fyrir SLAM og voru á WNBA draftinu um daginn, bara sem dæmi. Það eru algjör forréttindi að fá að prófa að búa hérna, og mjög þroskandi.”

Hvernig finnst þér körfuboltinn vera ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?

“Boltinn hér er miklu hraðari og mun meira áhersla lögð á varnarleikinn. Hver sókn/vörn virðist skipta meira máli hér, og slæmt skot sendir mann oft beint á bekkinn. Í D2 eru margir mjög góðir íþróttamenn sem voru erfiðir við að eiga, en í D3 sé ég meira af mjög tæknilega góðum leikmönnum. Æfingar eru líka lengri en heima og mjög krefjandi bæði á líkama og sál.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Já, ótrúlegt en satt þá á ég eitt ár eftir af keppnisrétti og mun því klára háskólaferilinn minn hér í NYU á næsta ári. Það gengur fullkomlega upp þar sem ég á eitt ár eftir af meistaranáminu. Ég er mörgum árum eldri en allir liðsfélagar mínir núorðið, en þetta er svo ótrúlega skemmtilegt og gott tækifæri að ég er mjög þakklát að fá að gera þetta í eitt ár í viðbót. Hvað tekur við eftir það er ekki alveg ákveðið en ég stefni á að spila körfubolta eins lengi og ég get.”

Fréttir
- Auglýsing -