Ágúst Björgvinsson er búinn að finna arftaka Andre Dabney í karlaliði Hamars en eins og kunnugt er lét Hamar Dabney fara á dögunum. Nýji leikmaðurinn heitir Devin Sweetney og á heimasíðu Hamars segist Ágúst ekki viss hvort Sweetney verði kominn til landsins fyrir Keflavíkurleikinn í kvöld, þau orð lét Ágúst falla á miðvikudag.
Sweetney stendur í tveimur metrum, 24 ára, og skilar stöðu skotbakvarðar eða lítils framherja. Síðast lék hann hjá Tulsa 66ers í D-League í Bandaríkjunum en var í skóla hjá St. Francis Red Flash og lék þar árin 2006-2010. Besta árið hans í háskólanum hjá St. Francis var tímabilið 2009-2010 þegar hann var með 16,9 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í leik.
Fróðlegt verður að sjá hvort Sweetney verði kominn í búning í kvöld en Hamarsmenn hafa tapað sex deildarleikjum í röð og halda nú á erfiðan útivöll.