Stjarnan tók á móti Hamri í Domino's deild kvenna í Ásgarði í kvöld. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið sem sitja saman á botni deildarinnar. Stjarnan með 3 sigurleiki en Hamar með aðeins 1. Mikilvægur leikur fyrir Stjörnuna, ætli liðið ekki að hleypa Hamri nær sér á töflunni.
Stjarnan hins vegar virtist ekki mæta fullkomlega reiðubúin til leiks. Sóknarleikur liðsins var oft á tíðum brösóttur og varnarleikurinn lítið skárri. Hamar átti erfitt uppdráttar í sókn en varnarleikur þeirra mjög góður. Héldu Stjörnunni í 59 stigum en liðið hefur skorað að meðaltali 80 stig gegn Hamri í vetur.
Garðabæjarliðið átti marga góða spretti þar sem boltinn gekk vel þar til gott skot fékkst en þeir voru einnig ófáir þar sem þær sættu sig við ótímabær og erfið skot með engum árangri. Þá nýtti Hamar tækifærið og minnkaði muninn á meðan.
Hamarsliðið hélt Stjörnunni í 14 stigum í öðrum leikhluta en setti sjálft niður 17 stig. Staðan var því 29-26 í hálfleik.
Stjörnukonur komu beittar til leiks í þriðja leikhluta og héldu Hamri í aðeins 9 stigum. Afleitur fjórði hluti hjá þeim hins vegar hleypti Hamarskonum aftur inn í leikinn. Hveragerðisliðið nýtti tækifærið og spilaði agaðan sóknarbolta en varnarleikur þeirra var einnig til fyrirmyndar. Hamar skoraði 29 stig í fjórða hluta, sem er rúmlega tvöfalt meðaltal þeirra í vetur.
Hamar ríghélt í forystuna allt til leiksloka og innsiglaði mikilvægan 59-64 sigur. Aðeins einn sigurleikur skilur liðin nú að á botni deildarinnar og er allt útlit fyrir spennandi botnbaráttu þeirra á milli fram að vori.
Alexandra Ford var frábær í liði Hamars með 28 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Íris Ásgeirssdóttir átti einnig mjög góðan leik. Varnarleikur og frákastabarátta Salbjargar Sævarsdóttur skipti samt sköpum fyrir liðið í þessum leik. Hjá Stjörnunni var Adrienne Godbold öflug með 21 stig og 18 fráköst en var farin að reyna allt of erfiða hluti á mikilvægum augnablikum leiksins. Margrét Kara Sturludóttir mætti, að mati undirritaðs, ein í vinnuna þetta kvöld. Barátta á báðum endum vallarins skilaði henni 13 stigum, 15 fráköstum, 7 stoðsendingum og 6 stolnum boltum.
Myndasafn: Tomasz Kolodziejski
Stjarnan-Hamar 59-64 (16-9, 13-17, 14-9, 16-29)
Stjarnan: Adrienne Godbold 21/18 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 13/15 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 7, Kristín Fjóla Reynisdóttir 6, Hafrún Hálfdánardóttir 5/5 fráköst, Heiðrún Kristmundsdóttir 5/6 fráköst/5 stoðsendingar, Eva María Emilsdóttir 2, María Björk Ásgeirsdóttir 0, Erla Dís Þórsdóttir 0, Bára Fanney Hálfdanardóttir 0.
Hamar: Alexandra Ford 28/8 fráköst/6 stoðsendingar, Íris Ásgeirsdóttir 13/6 fráköst/5 stolnir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 8/13 fráköst, Heiða Björg Valdimarsdóttir 6/4 fráköst, Nína Jenný Kristjánsdóttir 5, Jenný Harðardóttir 3, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 1/9 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 0, Karen Munda Jónsdóttir 0, Margrét Hrund Arnarsdóttir 0, Vilborg Óttarsdóttir 0, Erika Mjöll Jónsdóttir 0.
Mynd: Salbjörg Sævarsdóttir átti mjög góðan leik fyrir Hamar í kvöld. (Tomasz Kolodziejski)