spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaHamar-Þór með sigur á Ísafirði

Hamar-Þór með sigur á Ísafirði

Hamar-Þór vann góðan tveggja stiga sigur er liðið mætti Vestra á Ísafirði í 1. deild kvenna í dag.

Heimakonur byrjuðu leikinn betur og góð vörn þeirra hélt sóknarleik gestanna alveg niðri í fyrsta leikhluta sem endaði 13-6. Gestirnir sprungu hins vegar út í öðrum leikhluta þar sem þær skoruðu 29 stig á móti einungis 12 stigum Vestra og fóru með 25-35 forustu inn í hálfleik.

Góður leikur Hamar-Þórs hélt áfram í þriðja leikhluta en mest náðu þær 16 stiga forustu, 32-48, eftir körfu frá Juliu Demirer. Í kjölfarið fóru Vestrakonur að vakna til lífsins og kláruðu þær leikhlutann á 11-2 áhlaupi og löguðu stöðuna í 43-50.

Hamar-Þór kom muninum fljótlega aftur í tveggja stafa tölu í fjórða leikhluta, 45-56, áður en heimakonur fóru aftur að minnka hann jafnt og þétt. Þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir, jafnaði Linda Marín Kristjáns Helgadóttir leikinn frá vítalínunni, 58-58. Liðin skiptust svo á að skora þangað til Lovísa Bylgja Sverrisdóttir kom Hamar-Þór í 64-66 þegar 25 sekúndur voru eftir. Vestri fékk tækifæri til að stela sigrinum en lokaskot þeirra frá þriggja stiga línunni hrökk af hringnum um leið og lokaflautið gall.

Sara Emily Newman var best hjá Vestra en hún skoraði 24 stig, tók 6 fráköst og stal 6 boltum. Danielle Shafer kom næst með 19 stig og 9 fráköst og Linda Marín var með 8 stig og 5 fráköst.

Hjá Hamar-Þór var Astaja Tyghter nálægt því að setja í þrennu með 14 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar. Helga María Janusdóttir kom næst með 13 stig, Hrafnhildur Magnúsdóttir var með 11 stig og 7 fráköst og gamla brýnið Julia Demirer var með 9 stig og 11 fráköst.

Eftir leikinn er Hamar-Þór í 7.sæti með 12 stig en Vestri í því neðsta með 4 stig.

Bæði lið leika næst 29. janúar, Vestri mætir næst ÍR á útivelli en Hamar-Þór fær Ármann í heimsókn.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -