Hamar/Þór hafði betur gegn Aþenu í Austurbergi í kvöld í nýliðaslag 3. umferðar Bónus deildar kvenna, 85-97. Það sem af er tímabili hefur Hamar/Þór unnið tvo leiki og tapað einum á meðan Aþena hefur unnið einn og tapað tveimur.
Segja má að leikur kvöldsins hafi verið í nokkuð jafn framan af. Aþena leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta, 29-27 og þremur stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 50-47. Á þeim tímapunkti voru það þó heimakonur sem litu út fyrir að vera líklegri til þess að vinna leikinn, en þær höfðu náð að vera skrefinu á undan lengst af, þó baráttuglaðar Hamar/Þór konur hafi náð að koma til baka.
Leikurinn er svo áfram jafn í upphafi seinni hálfleiksins, en undir lok þess þriðja nær Hamar/Þór góðu áhlaupi sem setur þær þremur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 68-71. Í þeim fjórða ná þær svo að halda áfram að bæta við forskot sitt jafnt og þétt og vinna leikinn að lokum nokkuð örugglega, 85-97.
Atkvæðamest fyrir Hamar/Þór í leiknum var Abby Beeman með 44 stig og 10 fráköst. Henni næst var Teresa Sonia Da Silva með 14 stig og 4 fráköst.
Fyrir Aþenu var Barbara Ola Zienieweska atkvæðamest með 28 stig, 10 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá bætti Hanna Þráinsdóttir við 13 stigum og 9 fráköstum.
Bæði lið eiga leik næst komandi þriðjudag 22. október, en þá fær Aþena lið Stjörnunnar í heimsókn í Austurberg og Hamar/Þór og Grindavík eigast við í Hveragerði.
Myndasafn (Bára Dröfn)