Hamar vann góðan heimasigur í 1. deild kvenna í gærkvöldi þriðjudaginn 19. nóvember er liðið vann Grindavík B 82-61. Leikurinn sá fyrsti sem Hamar vinnur í vetur, því eru liðin jöfn að stigum eftir leikinn, með tvö hvort í 6.-7. sæti deildarinnar.
Hamar var yfir strax frá byrjun og í raun var sigurinn aldrei í hættu. Grindavík náði góðu áhlaupi þegar þær skiptu yfir í svæðisvörn en Hamarskonur gáfust aldrei upp og héldu öruggri forystu allan leikinn.
Liðsheild Hamars var góð og stigin dreifðust á marga. Besti leikmaður Hamars var Íris Ásgeirsdóttir með 21 stig, 8 fráköst og 3 stolna bolta. Rannveig Reynisdóttir var með 12 stig, allt úr þriggja stiga skotum. Álfhildur Þorsteinsdóttir var með 12 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Jenný Harðardóttir skilaði 10 stigum og 8 fráköstum. Annars dreifðist stigaskorið vel og allir 12 leikmenn komu inná og sýndu góða baráttu.
Hjá Grindavík var Natalía Jenný Jónsdóttir stigahæst með 15 stig og 4 stolna bolta. Petrúnella Skúladóttir var með 10 stig og 9 fráköst, aðrar minna.
Tölfræði leiks (væntanleg)
Umfjöllun / Bjarney Sif