spot_img
HomeFréttirHamar landaði tveimur kærkomnum stigum í kvöld

Hamar landaði tveimur kærkomnum stigum í kvöld

Snæfellsstúlkur komu í Hveragerði í kvöld með nýjan leikmann Jordan Murphree utan hóps þar sem leikheimild var ekki komin í tæka tíð fyrir kvöldið. Hvort sem það var trufla Inga Þór og Snæfellsliðið eða áhyggju af færðinni heim var kvöldið ekki gestanna heldur Hamarsstúlkna sem voru betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld og ætluðu sér allan tímann að taka sigurinn. Lokatölur 82-57 og mikil gleði í herbúðum Hamars eftir tvö kærkomin stig.
Hamar komst í 7-0 og 14-2 en þá tók Ingi Þór leikhlé. Alda Leif setti strax 3ja stiga skot eftir leikhlé en það var skammgóður vermir fyrir gestina og Hamar leiddi eftir 1. leikhluta 26-17 þrátt fyrir að ekki var skorað síðustu 2 mínútur leikhlutans. Áfram hélt Hamar að hamra járnið og juku fljótlega forskotið í 34-19 og annað leikhlé hjá Snæfell. Samantha og Fanney voru að setja 3ja stiga ofaní hjá Hamri sem og Katherine að hitta vel í stökkskotum en miklu munaði um að Hildur Sigurðar var ekki að finna sig hjá Snæfellsliðinu sem er mjög háð hennar framlagi. Vörnin var mjög góð hjá heimstúlkum sem unnu 2. leikhluta 17-9 og Hildur komin með 3 villur hjá gestunum að auki.
 
43-27 í hálfleik en áfram hélt gamanið fyrir heimamenn þar sem Snæfells liðið stillti upp í pressu en þá juku heimastúlkur bara forskotið og unnu 3. leikhluta 30-15 og munurinn orðinn 31 stig.
 
Síðasti leikhluti var formsatriði þar sem allar fengu að spila hjá báðum liðum og Samantha Murphy hvíld hjá Hamri allan leikhlutann enda búin að skila 25 stigum, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum og leikmaður kvöldsins með 70% nýtingu í 3ja stiga (7 /10) á 25 mínútum.
Leiknum lauk sem fyrr segir 82-57 og stigin skiptust hjá Hamri þannig að Samantha setti 25 stig/8 frák./5 stoð , Katherine 23 stig/8 frák./5 stoðsendingar og 5 stolna, Fanney Lind 14 stig/4 fráköst, Jenný 9 stig, Marín 6 stig, Íris 3 stig og Álfhildur 2 stig og 5 fráköst.
 
Hjá Snæfell munaði mikið um Kierrah Marslow sem skoraði 15, tók 8 fráköst og stal 5 boltum. Hildur Björg 10 stig, Hildur Sigurðar 8 stig/8 stoðsendingar, Alda Leif 8 stig, Björg Guðrún 6 stig, Hildur Hjördís 5 stig/6 fráköst, Berglind 3 stig og Ellen Alfa 2 stig.
 
Mynd/ Úr safni – Samantha Murphy átti sterkan leik fyrir Hamar í kvöld
 
Umfjöllun/ Anton Tómasson
 
   
Fréttir
- Auglýsing -