spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHamar lagði Hrunamenn í fyrsta leik tímabilsins

Hamar lagði Hrunamenn í fyrsta leik tímabilsins

Bæði Hrunamenn og Hamar tefla fram nýjum þjálfurum í meistaraflokki karla leiktíðina 2022-2023. Þjálfari Hrunamanna er Konrad Tota sem fyrir rúmum áratug var leikmaður Þórs Akureyri og Skallagríms. Þjálfari Hamars er Hornfirðingurinn Halldór Karl Þórsson sem undanfarin ár hefur þjálfað yngri flokka Fjölnis og þjálfaði kvennalið Fjölnis í úrvalsdeildinni á síðasta ári. Ragnar Ágúst Nathanaelsson lék fyrsta deildarleik sinn fyrir Hamar í langan tíma eftir flakk milli liða suður í Evrópu og í íslensku úrvalsdeildinni. Þá munar mikið um framlag Ragnars Hamarsmennina.

Leikur liðanna í 1. umerð keppninnar í 1. deild karla fór fram á Flúðum föstudagskvöldið 23. september. Það var skjálfti í heimamönnum í byrjun leiks. Áður en þeir náðu að koma boltanum einu sinni ofan í körfuna hafði Hamar gert 11 stig. Því forskoti héldu Hamarsmenn allan tímann og gott betur. Hrunamenn áttu áhlaup við og við sem sýndu að ýmislegt gott býr í mannskapnum þótt illa hafi gengið að draga þá hæfileika fram í leiknum. Lið Hamars vill eflaust líka laga eitt og annað í leik sínum en oft brá fyrir í leik þess ljómandi vel leiknum körfubolta.

Í síðari hálfleik héldu gestirnir 8-14 stiga forystu og svo jókst hún enn frekar. Leiknum lauk með öruggum sigri Hamars 87-105. Jose Medina Aldana var góður í liði Hamars, Björn Ásgeir naut sín prýðilega, Mirza skilaði drjúgu framlagi bæði í vörn og sókn og framlag Ragnars Ágústs var ómetanlegt. Hjá Hrunamönnum var bandaríski leikmaðurinn, Amhad James Gilbert langbestur. Yngvi Freyr kom með ágætt varnarframlag af bekknum.

Tvö atvik settu leiðinlegan svip á leikinn. Annað var þegar Haukur Davíðsson í liði Hamars varð að hætta leik vegna höfuðmeiðsla. Hitt var þegar Daði Berg í Hamri og Gilbert í liði Hrunamanna áttu í orðaskiptum í langan tíma sem leiddi til þess að dómararnir þurftu að skerast í leikinn. Dómararnir gáfu þeim fyrst báðum tæknivillu og svo Daða Berg aðra svo honum var vísað úr húsi. Þetta var óþörf og leiðinleg framkoma hjá leikmönnunum. Aðstæðurnar sem þeir rötuðu í voru kjánalegar, algjörlega sjálfskapaðar og ekki nokkur maður í íþróttahúsinu á Flúðum hafði samúð með þeim meðan á þessu fíflátum stóð, síst samherjar þeirra.

Hamar var betra liðið á vellinum allan leikinn. Liðið lék á köflum góðan leik. Leikur liðsins var þó ekki fullkominn. Hrunaliðið fann veikleika í Hamarsliðinu og hefði það herjað á þá lengur í einu hefði leikurinn e.t.v. einhvern tíma orðið spennandi. En það tókst liðinu einfaldlega ekki að gera. Hamar teflir fram sterkara liði í ár en á síðustu leiktíð. Leikmennirnir hafa trú á því sem þjálfarinn vill að þeir geri á vellinum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með framgangi Hamars í vetur.

Hrunamenn þurfa að slípa leik liðsins til. Þótt ágætis leikköflum hafi brugðið fyrir var sóknarleikur liðsins lélegur á löngum köflum. Skipulag varnarleiksins virðist í grófum dráttum vera í lagi en það vantar töluvert upp á það hvernig liðið ætlar að bregðast við því þegar liðsmaður tapar stöðu sinni maður gegn manni og hvernig liðið getur brugðist við með tilliti til eiginleika einstaka leikmanna liðsins. Þá þarf Konrad þjálfari fljótt að finna jafnvægi í tvöföldu hlutverki sínu sem leikmaður og þjálfari. Í næstu umferð leikur liðið gegn Selfyssingum á Selfossi. Hamar fær lið Álftaness í heimsókn í Hveragerði.

Tölfræði leiks

Myndir / Birgitte Bruger

https://www.karfan.is/2022/09/konrad-eftir-leikinn-gegn-hamar-vitum-hvad-vid-thurfum-ad-laga/
https://www.karfan.is/2022/09/ragnar-eftir-fyrsta-leikinn-fyrir-hamar-i-9-ar-flott-ad-sja-hvad-vid-thurfum-ad-baeta/
https://www.karfan.is/2022/09/halldor-um-heimkomu-ragnars-i-hamar-klubburinn-lyftist-upp-vid-ad-fa-hann/
Fréttir
- Auglýsing -