Miðvikudagskvöldið 14. október síðastliðið fór fram leikur Hamars og Keflavíkur í IcelandExpress-deild kvenna í íþróttahúsinu í Hveragerði. Ágætis mæting var í stúkuna og stemningin góð.
Leikurinn byrjaði heldur rólega og komust Keflavíkur-stúlkur yfir í byrjun 5-7. Ágúst Björgvinsson var langt frá því sáttur með spilamennsku sinna kvenna í Hamri og tók leikhlé í þeirri stöðu. Það sást greinilega að með þessu leikhléi var eins og Ágúst hafði kveikt á einhverjum rofa sem gleymdist að kveikja á í byrjun og segja má segja að þær bláklæddu hafi ekki séð til sólar eftir þetta.
Hamars-stúlkur breyttu stöðunni úr 5-7 í 18-9 og þegar 1. leikhluta lauk var staðan 29-16 Hamri í vil. Ekkert stórvægilegt átti sér stað á vellinum í 2. leikhluta en Hamar gaf ekkert eftir og virtust engin ráð Keflvíkinga duga á heimaliðið. Í hálfleik var staðan 46-34 Hamri í vil.
Hamars-stúlkur komu dýrvitlausar til leiks í 3. leikhluta og þegar hann var tæplega hálfnaður höfðu heimastúlkurnar skorað 18 stig gegn engu stigi Keflvíkinga og segja má að þarna höfðu þær gert útaf við leikinn. Staðan var orðin 58-34 þegar tæpar 4 mínútur voru búnar af leikhlutanum. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 73-44 fyrir Hamri. Leiknum lauk svo með 20 stiga sigri Hamars, 82-62.
Fanney Lind Guðmundsdóttir var langatkvæðamest í liði Hamars með 22 stig, þar af 3 af 3 þriggja stiga körfum sínum. Hún var einnig með 9 fráköst.
Næst á eftir henni voru Sigrún Ámundadóttir, með 17 stig og 11 fráköst, og Koren Schram einnig með 17 stig.
Birna Valgarðsdóttir var sú eina sem komst almennilega á blað hjá Keflavíkurliðinu, með 24 stig og 13 fráköst.
Næst á eftir henni var María Ben með 8 stig.
Þegar nánar er rýnt í tölfræðina má sjá að Keflavíkur-stúlkur töpuðu 29 boltum á meðan Hamar tapaði 15. Tölfræði leiksins má nálgast hér.
Myndasafn úr leiknum má nálgast hér.
Pistill: Jakob Hansen
Myndir: Sævar Logi Ólafsson
Fjöldi áhorfenda: 107
Miðvikudagskvöldið 14. október síðastliðið fór fram leikur Hamars og Keflavíkur í IcelandExpress-deild kvenna í íþróttahúsinu í Hveragerði. Ágætis mæting var í stúkuna og stemningin góð.