spot_img

Hamar jafnaði metin

Fjölnir var með algjöra yfirhönd í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi þeirra. 26 stiga sigur Fjölnismanna í Grafarvogi staðreynd og stærsta tap Hamars á tímabilinu gat vart komið á verri tíma fyrir þá. Ljóst var að leikmenn Hamars þurftu að sýna eitthvað strax ætluðu þeir sér að hafa betur en Fjölnir í þessari úrslitaseríu.


Jafnræði var með liðunum frá fyrstu sekúndum. Skiptust liðin ellefu sinnum á að leiða fyrsta fjórðung og sem fyrr voru atkvæðamestir Everage Richardson fyrir Hamar og Marques Oliver fyrir Fjölni. Hamarsmenn voru yfir mestallan annan leikhluta og náðu mest fimm stiga forystu.

Fjölnismenn voru þó aldrei langt undan og náðu með góðri spilamennsku að minnka muninn niður í eitt stig þegar flautað var til hálfleiks. Staðan var 41-40 fyrir Hamri í hálfleik.


Fjölnismenn komu talsvert grimmari út í seinni hálfleik og komust með góðri spilamennsku og góðri þriggja stiga nýtingu í 11 stiga forystu þegar leikhlutin var hálfnaður. Hamarsmenn réttu þó úr kútnum og var staðan jöfn í lok þriðja leikhluta.


Aftur í fjórða leikhluta komust Fjölnir í forskot sem varð mest 7 stig en Hamars menn neituðu að gefast upp. Fjölnismenn misstu þar að auki Marques Oliver útaf með fimm villur þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir og leiddu Fjölnismenn þá með fimm stigum. Leikmenn Hamars nýttu sér þetta vel og minnkuðu forskot Fjölnis og tóku svo forystuna sjálfir þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Þegar aðeins 17 sekúndur voru eftir af leiknum jafnar Srdan Stojanovic metin með mögnuðu þriggja stiga skoti, 86-86. Í næstu sókn á eftir náðu Hamarsmenn þó að finna Marko Milekic sem kom Hamri í 88-86 þegar 1,5 sekúnda var eftir og þar við sat. Sigur Hamarsmanna staðreynd og serían jöfn í 1-1.


Það var hart barist í leiknum og höfðu báðir þjálfarar orð á því eftir leik að þeim hefði sumt sem dæmt hefði verið á ekki verið brot og kallaði Máté Dalmay, þjálfari Hamars, eftir því að liðin myndu fá að berjast meira án þess að þurfa að hlusta á eilífan flautukonsert dómaratríósins. 22 villur voru dæmdar á Hamar og 24 á Fjölni.


Atkvæðamestir hjá Hamri voru:
Julian Rajic með 22 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar.
Everage Lee Richardson með 21 stig, 2 fráköst og 6 stoðsendingar.
Ragnar Jósef Ragnarsson með 15 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar.


Atkvæðamestir hjá Fjölni voru:
Srdan Stojanovic með 23 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.
Marques Oliver með 20 stig, 11 fráköst og 2 stoðsendingar.
Vilhjálmur Theódór Jónsson með 19 stig, 6 fráköst og eina stoðsendingu.
Næsti leikur liðanna verður næstkomandi föstudag, 12. apríl, klukkan 19:15 í Dalhúsum í Grafarvogi.

Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Helgason

Fréttir
- Auglýsing -