Hallgrímur Brynjólfsson tók við taumum hjá kvenna liði Fjölnis fyrir komandi tímabil og mun hann koma til með að reyna stýra liðinu aftur á úrslitakeppnisbraut. “Undirbúningur er komin á fullt í Fjölni. Mörg ný andlit komin í hópin, erum að stilla saman strengi okkar. Allir leikmenn eru að kynnast þjálfarateyminu og við að koma með okkar áherslur inn í Fjölni. Næsta vika mun vera bara eins of flestar æfingavikur hjá okkur. Við tökum einn æfingaleik til þess að sjá hvar við stöndum fyrir fyrsta prófið okkar sem er gegn Grindavík í næstu viku. Sjáum hvað við þurfum að fínpússa til þess að koma klárar inn í það verkefni. ” sagði Hallgrímur í samtali við Karfan.is
Þó nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahóp Fjölnis og ber þar hæst að Raquel Laneiro, Portúgalski bakvörðurinn sem lék með Njarðvík í fyrra leikur í gulu og bláu á næsta tímabili.
“Já hópurinn okkar er fullmannaður. Við réðum til okkar Raquel Laneiro sem spilaði með Njarðvík á seinasta tímabili við mjög góðan orðstýr og hefur hún komið inn með mikin kraft. Korinne Campbell samdi við okkur í sumar og hefur einnig komið vel inn í hópinn okkar með allri sinni reynslu. Einnig náðum við að semja við Sigurbjörgu Rós um að verða aðstoðarþjálfari hjá Fjölni. Samstarfið gengur alveg lygileg vel. Margrét Blöndal, Arndís Þóra, Nína Jenný og Kristín Rós koma til okkar frá ÍR og falla eins og flís við rass í þennan unga, þrælefnilega og skemmtilega hóp sem fyrir er.”
Okkur dreymir um að verða meistarar
Hallgrímur fer ekki í grafgötur með drauma liðsins og svo raunhæfar væntingar þrátt fyrir að hafa þétt raðirnar í leikmannahópnum.
“Eins og hjá hinum níu liðunum dreymir okkur um að verða meistari, en það er draumur eins og staðan er núna. Fyrsta markmið er að tryggja veru okkar í deildinni og þá komumst við inn í úrslitakeppnina. Okkar markmið munu taka breytingum eftir því sem líður á tímabilið og vonandi verður það þannig að við stækkum sjóndeildarhringinn á okkar markmiðum.”
Það er erfitt fyrir Hallgrím að bera saman tímabilið sem er framundan og það sem liðið er. Miklar breytingar á hópnum kalla eðlilega á áherslubreytingar, svo ekki sé talað um að nýr þjálfari í brúnni hlýtur að koma með sínar áherslur í stigasöfnun.
“Já það er rétt hjá þér, það er erfitt að bera saman þennan hóp og þann sem var seinasta tímabil. Hverjum þykir sinn fugl fagur og á það einnig við þjálfara, þ.e.a.s. að þeir telja sinn stíl þann eina rétta. Við munum fara inn í mótið að reyna að opna völlinn mikið og fá boltann til að flæða hratt á milli leikmanna til þess að eiga möguleika á að skapa hágæða skot. Við í þjálfarateyminu stefnum á að gefa ungum leikmönnum sem við teljum tilbúnar í verkefnið sanngjörn tækifæri, það er svo leikmannanna að grípa tækifærin þegar þau gefast.” sagði Hallgrímur og blæs hér hressilega í hvatningu ungra leikmanna liðsins.
Að venju vildum við heyra hvað Hallgrím finnst um komandi vetur og hvernig hann sjái deildina spilast?
“Ég held að deildin verði jafnvel þrískipt sem þarf ekkert endilega að vera slæmt. Ég er allaveganna mjög spenntur fyrir þessu nýja fyrirkomulagi og ég vona að aðdáendur, fjölmiðlar, leikmenn og þjálfarar sýni þessu þolinmæði.”