Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari Hamars segir sína liðsmenn ætla leggja allt í sölurnar í kvöld þegar Valur mætir í Frystikistuna í Hveragerði í undanúrslitum Poweradebikarsins. Leikurinn hefst kl. 19:15 en Karfan.is tók púlsinn á Hallgrími fyrir leikinn stóra.
Búast flestir við því fyrirfram að Valur verði öruggur sigurvegari í leiknum. Einhver kostur við að fara sem svona minna liðið inn í svona leik?
Kostur og ekki kostur. Klisjan segir að kosturinn sé að enginn búist við sigri af okkur, en ég held að það séu c.a. 3000 Hvergerðingar sem setja þá pressu á okkur að sigra. En hinsvegar setjum við pressuna á okkur sjálf og við ætlum að sjálfssögðu að leggja allt í sölurnar til þess að komast í Höllina!
Hvernig ætlið þið að leggja þetta upp gegn Valskonum? Megum við fá nasaþefinn af hernaðaráætluninni?
Þetta verður geðveiki á háu stigi! Keyrum upp hraðann og höfum gaman að!
Munu Hvergerðingar fjölmenna á völlinn?
Hvergerðingar ætla að fylla Frystikistuna í kvöld! Ég lofa frábærri skemmtun sem að stjórn Hamars er að skipuleggja, ljósasýning, grillaðir hamborgarar að hætti Lalla Formanns og svo munum við ásamt Valsliðinu toppa þetta allt með skemmtilegum leik.
Varðandi Snæfell-Keflavík, hvað sérðu í þeirri rimmu? Hvort liðið fer þar í Höllina?
Ég giska á að heimavöllurinn spili stóra rullu og að Snæfell komist í höllina.