spot_img
HomeFréttirHalldór: Margir ljósir punktar þrátt fyrir tap

Halldór: Margir ljósir punktar þrátt fyrir tap

 
Nýliðar ÍA í 1. deild karla tóku á móti Þór Þorlákshöfn að Jaðarsbökkum á Akranesi í kvöld. Heimamenn máttu sætta sig við 78-100 ósigur gegn gestum sínum en Halldór Gunnar Jónsson leikmaður ÍA sagði þó marga ljósa punkta á leik nýliðanna þó vissulega hefði nýliðabragur gert vart við sig í leiknum.
 
,,Þetta var nokkuð gott í fyrsta leikhluta hjá okkur og þar leiddum við til að byrja með en Þórsarar komust svo yfir og í öðrum leikhluta var frekar mikill nýliðabragur á þessu hjá okkur,“ sagði Halldór og kvað Skagamenn hafa ráðið illa við Zach Allander sem gerði 28 stig í leiknum.
 
,,Þá var Grétar Erlendsson einnig illur viðureignar í teignum en hann gerði 24 stig gegn okkur og Baldur Ragnarsson stjórnaði Þórsliðinu með miklum sóma,“ sagði Halldór sem sjálfur gerði 22 stig í leiknum en stigahæstur Skagamanna var Hörður Nikulásson með 29 stig.
 
,,Það voru um 150 áhorfendur á leiknum og við vorum sáttir með mætinguna og vorum sáttir við marga af okkar hlutum í leiknum enda vorum við að spila við eitt af sterkustu liðum deildarinnar. Við erum samt komnir til að vera í deildinni, það er engin spurning og við getum vel bætt okkur frá þessum í leik og það voru margir ljósir punktar í þessu hjá okkur,“ sagði Halldór en næsti leikur Skagamanna er gegn Ármenningum í Laugardalshöll föstudaginn 16. október næstkomandi.
 
Fréttir
- Auglýsing -