Halldór Karl Þórsson hefur verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka hjá Fjölni og hefur þegar hafið störf.
Halldór Karl þarf hvorki að kynna fyrir Fjölnisfólki né íslenska körfuboltaheiminum. Hann hefur síðastliðin ár haslað sér völl sem metnaðarfullur þjálfari bæði hjá yngri- og meistaraflokkum Fjölnis. Hann gerði meðal annars kvennalið Fjölnis að deildarmeisturum í Subway deild kvenna árið 2022.
Halldór Karl kemur til félagsins frá Hamri en félaginu tókst að tryggja sér sæti í Subway deild karla á næsta tímabili og mun Halldór Karl starfa áfram sem þjálfari meistaraflokks karla Hamars. Halldór Karl er einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna og aðalþjálfari undir 20 ára landsliðs kvenna.
Ný stjórn Fjölnis ætlar í uppbyggingu á barna-og unglingastarfi félagsins og er ráðning Halldórs liður í því að styrkja starfið sem framundan er í Grafarvoginum samkvæmt fréttatilkynningu félagsins. Með ráðningu yfirþjálfara stefnir Fjölnir á að gera þjálfun körfuboltans markvissari og metnaðarfyllri en áður en Fjölnir stefnir á frekari afreksþjálfun í yngri flokkum sem mun á endanum leiða til sterkari barna-og unglingastarfs hjá félaginu.