spot_img
HomeFréttirHalldór Karl eftir Norðulanda- og Evrópumót með undir 18 ára stúlkum "Fjárhagslegur...

Halldór Karl eftir Norðulanda- og Evrópumót með undir 18 ára stúlkum “Fjárhagslegur stuðningur við krakkana í afrekstarfinu myndi hjálpa landsliðunum mikið”

Undir 18 ára stúlknalið Íslands lauk verkefnum sumarsins fyrr í mánuðinum, en líkt og fyrri ár tók liðið þátt í Norðulandamóti í Södertalje í Svíþjóð áður en haldið var til Ploiesti í Rúmeníu til þess að leika á Evrópumóti.

Á Norðurlandamótinu, sem oftar en ekki er notað sem æfingamót fyrir Evrópumótið, hafnaði liðið í fjórða sæti. Á Evrópumótinu sem hófst nú í byrjun mánaðar hafnaði liðið svo í 12. sæti af 18 liðum, en þar unnu þær tvo leiki og töpuðu fimm.

Karfan hafði samband við Halldór Karl Þórsson þjálfara Íslands og spurði hann út í hvernig hann teldi sumarið hafa gengið hjá hópnum og hvað hann haldi að þurfi að gerast svo liðið geti haldið áfram að taka skref upp á við í framtíðinni.

Hvernig fannst þér verkefni sumarsins (NM og EM) ganga?

“Mót sumarsin voru ólík en fyrir NM var liðið aðeins búið að æfa saman í stuttan tíma svo mótið þar fór meira í að koma liðinu inn í það leikkerfi sem við vildum spila, æfa þá hluti sem við höfðum farið yfir á þeim æfingum sem við höfðum verið með fyrir mót og nota leikina til að greina þau mistök og upphefja það sem við vorum að gera vel. Með það sjónarhorn á NM gekk mótið vel.”

“Fyrir EM höfðum við æft vel og fannst mér liðið koma mjög vel undirbúnar fyrir mótið, liðheildin var þétt og mikil stemming í hópnum. Við byrjuðum mjög vel gegn Slóvakíu en erfiður seinni hálfeikur sóknarlega varð til þess að við töpuðum niður forystunni og enduðum með að tapa þeim leik. Við áttum síðan tvo mjög sterka leiki í riðlinum gegn Austuríki sem vannst í framlengingu en ljóst var að við þyrftum að vinna Tékkland með 8 stigum til að komast uppúr riðlinum. Tékka leikurinn var okkar besti leikur á mótinu en að mínu mati var það lang sterkasta liðið á mótinu en við náðum ekki að komast það nálægt að vinna með 8 og úr varð að við fórum í að leika um 9-18 sætið. Í þeim leikjum var álagið mikið og þreyta og meiðsli fór að setja mark sitt á hópinn en við höfðum misst Elísabetu út snemma á mótinu og alls konar meiðsli fóru að dúkka upp í liðinu, við enduðum í 12.sæti og vorum öll sammála um að hefði úrslitin aðeins dottið okkar í hag hefðum við getað endað hærra.”

Hvernig fannst þér þróunin vera á liðinu yfir þessa mánuði?

“Þróunin á liðinu var mjög góð að mínu mati, mér fannst stelpurnar vera mjög góðar í að ná hlutum hratt og vörnin orðin mjög góð fyrir lokamótið. Munurinn frá fyrsta leik á NM og að fyrsta leik á EM var gríðalega mikill og ótrúlega gaman að sjá liðið spila saman meirihlutann af tímanum.”

Hvernig metur þú árangurinn á EM og NM í sumar?

“Við vorum með hærri markmið en markmiðið var að að komast uppúr riðlinum og svo að gera atlögu að komast upp um deild, einn seinnihálfleikur gerði það að verkum að það náðist ekki, þetta getur verið ekki meira en það sem gerir mótin. Svæðisvarnir fóru síðan að stríða okkur í sætum 9 – 18 en engin lið þar réðu við liðið í maður á mann, en skotnýtingin fyrir utan sveik okkur aðeins í þeim leikjum.”

Hefði þetta lið getað farið lengra?

“Já það tel ég, smá meiri heppni og eitt stopp á mikilvægum tíma hefði alveg getað snúið miklu, það hefði verið mjög gaman að fylgjast með hvernig liðið hefðið spilað í 8-liða úrslitum þar sem leikurinn gegn Tékklandi sem enduðu að tryggja sig upp í A-deild var virkilega sterkur og jafn sem bæði liðin voru líkleg að sigra. Ég er alveg handviss um að við hefðum farið í 4-liða úrslitin hefðum við farið upp úr riðlinum.”

Hvernig sérð þú þetta lið á komandi árum?

“Ég er virkilega spenntur að fylgjast bæði með U18 næsta sumar og svo 2006 árgangum í u20. Við vorum aðeins með þrjár á eldra ári í þessu verkefni þannig ég er handviss um að við náum góðum árangri í u18 landsliðinu á næsta ári, liðin í u18 í sumar voru meira og minna borin uppi af stelpum fæddum 2006 og við með lang flestar stelpur á yngra ári, þannig ef allar stelpurnar eru tilbúnar og við fáum líka sterkan 2008 árgang upp í liðið. Verður virkilega spennandi að fylgjast með því liði á næsta ári. 2006 árgangurinn þarf svo að fylgja eftir góðum árangri bæði u20 í sumar, svo líka að byggja á því sem þær náðu með 2005 árganginum í fyrra, en þar náðu þær í 8-liða úrslit. Það verður virkilega spennandi að fylgjast með öllum þessum stelpum á næstu árum.”

Hvað þarf að gerast svo þessi árgangur nái að taka næsta skref?

“Að liðin haldi áfram að þróa og bæta stelpurnar, jafnvel þótt þær séu komnar í meistaraflokkshópa þá eru þær ungar og þær þurfa meiri einstaklingsþjálfun og styrktarþjálfun. Ég hef fulla trú á liðunum sem þær koma úr og að því sé sinnt vel. Ég held að fjárhagslegur stuðningur við krakkana í afrekstarfinu myndi hjálpa landsliðunum mikið en það tekur út allan efa hvort þau taki þátt í verkefnunum en við vorum með nokkrar stelpur sem gáfu ekki kosta á sér þetta sumarið útaf kostanaði og aðrar sem voru efins um að taka þátt, þetta er stærsta vandamálið í landsliðsstarfi KKÍ í dag og vonandi kemur einhver stuðningur fljótt.”

Fréttir
- Auglýsing -