spot_img
HomeFréttirHafa ekki tapað á Ásvöllum í 18 mánuði

Hafa ekki tapað á Ásvöllum í 18 mánuði

17:40

{mosimage}

Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára, Haukar (2006) og Keflavík (2003-2005), mætast í kvöld klukkan 19.15 fyrsta leik sínum um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express-deild kvenna. Frá þessu er greint á www.visir.is í dag. 

Liðin mættust einnig í fyrra og þá vann Haukaliðið alla þrjá leikina þar af 29 stiga sigur, 90-61, í fyrsta leiknum á Ásvöllum. Keflavíkurstúlkur lentu þá 22-9 undir eftir fyrsta leikhlutann og þurfa að byrja einvígið talsvert betur í ár ef þær ætla að endurheimta titilinn sem þær unnu þrjú ár þar á undan. 

Haukar hafa unnið fjóra af fimm leikjum liðanna í vetur þar af tvo þá síðustu með aðeins þremur stigum samanlagt. Haukar unnu bikarúrslitaleikinn, 78-77, 17. febrúar, og deildarleik liðanna í Keflavík 14. mars 79-81. Eini sigur Keflavíkur á Haukum á tímabilinu var 17. desember í Keflavík en hann fór 92-85 fyrir Keflavík. Haukastúlkur lentu í kröppum dansi í undanúrslitaeinvíginu gegn Stúdínum sem fór alla leið í oddaleik. 

Það að slá ÍS út úr úrslitakeppninni boðar hins vegar gott því sex síðustu lið sem hafa slegið út Stúdínur hafa fagnað Íslandsmeistaratitlinum eða allt frá árinu 2000. Keflavík vann sitt einvígi gegn Grindavík 3-1 þar sem útlendingamál Grindvíkinga settu mikinn svip á síðustu tvo leikina sem Keflavíkurliðið vann. 

Helena Sverrisdóttir, fyrirliði Hauka, hefur verið illviðráðanleg fyrir Keflavíkurstúlkur í innbyrðisleikjum liðanna í vetur. Í þeim hefur Helena skorað 26,6 stig, tekið 12,4 fráköst og gefið 8,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Helena er sá leikmaður liðanna sem hefur langhæsta framlagið úr þessum fimm leikjum.  

Í eina sigurleik Keflavíkur á Haukum skoruðu þær Kesha Watson og María Ben Erlingsdóttir báðar yfir 30 stig og María Ben nýtti meðal annars 13 af 18 skotum sínum. Mikilvægi Maríu sést ekki síst á frammistöðu hennar í sigur- og tapleikjum Keflavíkurliðsins í vetur.  

Í sigurleikjunum í deildinni var hún með 18,5 stig, 57 prósenta skotnýtingu og 20,7 framlagsstig en í tapleikjunum var hún með 14,5 stig, 46 prósenta skotnýtingu og 13,7 framlagsstig. Það má því búast við að Haukar leggi áherslu að stoppa Maríu sem hefur verið með 19,2 stig og 56 prósenta skotnýtingu á móti Haukum í vetur. 

Ætli Keflavíkurstúlkur að vinna Íslandsmeistaratitilinn þurfa þær að vinna að minnsta kosti einn leik á Ásvöllum. Engu íslensku liði hefur tekist það undanfarna 18 mánuði. Haukaliðið hefur unnið 26 heimaleiki í röð á Ásvöllum, þar af sex í röð gegn Keflavík.

 

Eftir óój- blaðamann hjá Fréttablaðinu, www.visir.is

Fréttir
- Auglýsing -