Vestri hefur samið við framherjann Gunnlaug Gunnlaugsson um að leika með liðinu á komandi tímabili í fyrstu deild karla. Staðfestir félagið þetta á heimasíðu sinni.
Gunnlaugur er uppalinn innan félags forvera Vestra, KFÍ á Ísafirði, en hann hefur leikið 130 meistaraflokksleiki fyrir félögin tvö og lið Bolungarvíkur. Síðast lék hann fyrir Vestra tímabilið 2018-19. Þá hafnaði Vestri í 5. sæti fyrstu deildarinnar og féll út í fyrri umferð úrslitakeppninnar gegn Fjölni.