Gunnhildur Gunnarsdóttir varð frá að víkja í fyrri hálfleik í landsleiks Íslands og Slóvakíu eftir meiðsli á annarri öxl. Ljóst er að Gunnhildur verður frá á næstunni vegna þessa.
„Viðbeinið er heilt, liðböndin og það í kring eru tognuð, slitið eða rifið og þetta er ekki allt heilt og ekki heldur allt slitið svo þetta hefði getað farið mun verr,“ sagði landsliðsbakvörðurinn Gunnhildur í samtali við Karfan.is.
Gunnhildur hefur undanfarið verið að glíma við brjósklos og segir þetta komið gott að sinn af meiðslunum. „Ég hef verið að glíma við brjósklosið síðan í sumar en er nú ekki alveg jafn slæm og Berglind systir sem er búin að fara í axlaraðgerð og tvívegis í hnéaðgerð svo við systurnar skiptum þessu vel á milli. En fyrir mína parta lít ég svo á að ég sé búin með kvótann í þessu,“ sagði Gunnhildur en það var einmitt Berglind systir hennar sem hljóp vel í skarðið í íslenska liðinu eftir að Gunnhildur fór meidd af velli gegn Slóvökum.
Búist er við því að Gunnhildur verið frá í nokkrar vikur vegna meiðslanna.
Mynd/ [email protected] – Gunnhildur í leiknum gegn Ungverjum um síðustu helgi.