Snæfell lagði Grindavík í 11. umferð Dominos deildar kvenna fyrr í kvöld í Stykkishólmi. Eftir leikinn er Snæfell í 6. sæti deildarinnar með 6 stig á meðan að Grindavík vermir botnsætið, enn í leit að fyrsta sigurleiknum.
Leikur kvöldsins var jafn og spennandi framan af og voru það heimakonur í Snæfell sem leiddu eftir fyrsta leikhluta, 23-20. Undir lok fyrri hálfleiksins tóku gestirnir úr Grindavík þó öll völd í vellinum og snéru taflinu sér í hag. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 41-48 Grindavík í vil.
Í upphafi seinni hálfleiksins náðu heimakonur þó vopnum sínum aftur. Vinna þriðja leikhlutann með 17 stigum og eru því með 10 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 69-59. Í honum gerðu þær svo það sem þurfti til þess að sigla að lokum nokkuð öruggum 12 stiga sigur í höfn, 87-75.
Atkvæðamest fyrir heimakonur í leiknum var Gunnhildur Gunnarsdóttir, en á tæpum 37 mínútum spiluðum skilaði hún 27 stigum, 6 fráköstum, 8 stoðsendingum, 4 stolnum boltum og 2 vörðum skotum.
Fyrir gestina úr Grindavík var það Ólöf Rún Óladóttir sem dróg vagninn með 26 stigum og 3 fráköstum.
Myndasafn (væntanlegt)