spot_img
HomeFréttirGunnar stal senunni í Njarðvík

Gunnar stal senunni í Njarðvík

Tvítugur Grafarvogskappi með kyn til Keflavíkur réði úrslitum í kvöld þegar Keflavík lagði Njarðvík 85-88 í einum besta leik Domino´s deildarinnar til þessa á tímabilinu. Leikur kvöldsins sem og rimma Hauka og Grindavíkur skora hvað best til þessa en eftir kvöldið í kvöld velkist enginn í vafa um hver Gunnar Ólafsson sé. Gunnar kláraði leikinn með þrist í horninu og skildi 0,6 sekúndur eftir á klukkunni svo nánast ógerningur var fyrir Njarðvíkinga að jafna. Grannaglíma Suðurnesjaveldanna sveik engann, uppselt var í Ljónagryfjuna og komust færri að en vildu! Sigur Keflavíkur í kvöld var þeirra fyrsti í Ljónagryfjunni í deildarleik síðan 28. október 2007.
 
 
Því skal svo haldið til haga að Friðrik Pétur Ragnarsson formaður KKD UMFN skuldar Fal Harðarsyni formanni KKD Keflavíkur kippu af Gatoarade.
 
Guðmundur Jónsson gerði sex fyrstu stig leiksins fyrir Keflavík úr þriggja stiga skotum og kunni vel við sig á uppeldisvellinum. Hann varð í kvöld, samkvæmt því sem við komumst næst, fyrsti uppaldi Njarðvíkingurinn til þess að leika meistaraflokksleik með Keflavík í Ljónagryfjunni.
 
Njarðvíkingar blésu á lætin í Guðmundi í upphafi leiks og settu upp sýningu í fyrsta leikhluta, Logi Gunnarsson gerði 14 stig í leikhlutanum og hin margrómaða Keflavíkurvörn, sem reyndar átti eftir að minna á sig, fékk yfir sig 32 stig á 10 mínútum og heimamenn leiddu 32-24 eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Þröstur Leó Jóhannsson var kveikjan að flottustu tilþrifum fyrri hálfleiks þegar hann varði glæsilega skot frá Elvari Má Friðrikssyni í öðrum leikhluta, Keflavík náði frákastinu og skilaði boltanum fljótt fram þar sem Guðmundur Jónsson setti niður þrist, flott flétta. Njarðvíkingar leiddu þó í hálfleik, staðan 53-48 en í öðrum leikhluta litu klaufaleg mistök dagsins ljós á báða bóga. Tempóið var hátt fyrstu 15 mínútur leiksins svo það var viðbúið að menn þyrftu að blása en þó mönnum væru mislagðar hendur var spennustigið alltaf hátt.
 
Keflvíkignar áttu Darrell Lewis inni en þessi silkimjúki leikmaður var aðeins með þrjú stig í hálfleik. Craion var með 14 og Guðmundur 13 en hjá Njarðvíkingum var Logi kominn með 19 stig en þeir Elvar og Nigel Moore báðir með 11.
 
Hugmyndasnauðir þegar Keflavík skrúfaði upp hitann
Framan af þriðja leikhluta virtust Njarðvíkingar vera við stýrið, heimamenn komust í 60-52 og léku glimrandi bolta. Keflvíkingar bitu þó frá sér og 9 stig frá Lewis í þriðja leikhluta kom gestunum á sporið sem náðu upp stemmningu í varnarleiknum. Að sama skapi var skotnýting Njarðvíkinga fyrir utan farin að dala. Sterkur viðsnúningur Keflavíkur hófst og kom Craion gestunum í 65-66 en Njarðvíkingar náðu forystunni á nýjan leik og leiddu 70-67 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Keflavíkurvörnin varð banabiti Njarðvíkinga í kvöld. Þeir Elvar Már, Nigel og Logi virtust á löngum köflum í fjórða leikhluta vera hikandi gegn svæðisvörn Keflavíkur og við hvert hik virtust Keflvíkingar eflast og náðu að breyta stöðunni í 72-85 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Hér héldu margir að björninn væri unninn rétt eins og þegar Njarðvíkingar virtust ætla að stinga af í upphafi síðari hálfleiks.
 
Síðustu fjórar mínúturnar fóru Njarðvíkingar inn í 13-0 áhlaup og jöfnuðu leikinn í 85-85. Logi Gunnarsson minnkaði muninn í 82-85 með þriggja stiga körfu sem virtist nánast úr ómögulegu færi og Ágúst Orra jafnaði leikinn þegar rúmar fimm sekúndur voru eftir. Hreint út sagt lygilegur endasprettur og allt á suðupunkti í troðfullri Ljónagryfjunni.
 
Guðjóns-skot Gunnars
Það er til annar Keflvíkingur sem kann afar vel við sig í hornunum, hann var t.d. vopnaður míkrófón fyrir RÚV í kvöld og tók viðtöl eftir leik en sá heitir Guðjón Skúlason. Í lokasókn Keflavíkur tók Gunnar innkastið, sendi á Craion sem skilaði boltanum aftur niður í hægra horn til Gunnars sem vippaði sér upp, og það er ekki lítil vippa enda drengurinn gormur af Guðs náð, og skellti niður hornaþristi í anda Guðjóns Skúlasonar, 85-88 og 0,6 sekúndur eftir á klukkunni. Leikurinn var þar með úti, líkurnar á að ná skoti með 0,6 á klukkunni og það skoti af einhverju ráði eru afar litlar og lokaskot Nigel Moore hitti ekki hringinn og Keflvíkingar fögnuðu vel í leikslok.
 
Frábær grannarimma sem bauð upp á glæsileg tilþrif, töluverða kaflaskiptingu og að mati undirritaðs komust dómarar leiksins vel frá afar krefjandi verkefni. Aðeins þrjú stig skildu liðin að í leikslok svo Keflvíkingar ættu hreinlega að huga að því að hefja brátt forsölu á seinni deilarleik liðanna eftir áramót.
 
Darrell Lewis lauk leik með 14 stig og 11 fráköst í kvöld og var að mati undirritað helsti arkitektinn að endurkomu Keflavíkur í leiknum. Michael Craion var sem fyrr illviðráðanlegur með 24 stig og 12 fráköst. Gunanr Ólafsson sem lék í rúmar 33 mínútur lauk leik með 11 stig og 6 fráköst virðist vera einn af þeim sem fæddur er með stáltaugar. Annar slíkur er Guðmundur Jónsson og kvaddi hann með 17 stig.
 
Logi Gunnarsson var með 22 stig og 5 fráköst hjá Njarðvík. Elvar Már Friðriksson var með 17 stig og 12 fráköst og Ágúst Orrason kom sterkur inn af bekknum með 14 stig.
 
 
Mynd/ [email protected] – Smá svona „what have I done“ svipur á Gunnari.
  
Fréttir
- Auglýsing -