14:53
{mosimage}
Garðbæingar fóru lengstu leið upp í úrvalsdeild eftir sigur á Valsmönnum í oddaleik 1. deildar karla í körfuknattleik. Þór Akureyri og Stjarnan munu leika í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en Stjarnan kom sem síðasta lið inn í úrslitakeppnina og byrjaði á því að slá Breiðablik út í undanúrslitum og mættu síðan Valsmönnum í úrslitaeinvíginu um lausa sætið. Stjörnumenn sýndu af sér mikla baráttu þar sem bæði Breiðablik og Valur höfðu heimavallarréttinn sín megin í rimmunum.
Víkurfréttir náðu tali af Gunnari Sigurðssyni, formanni Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar en hann hefur fulla trú á því að liðið eigi eftir að standa sig með prýði í deild þeirra bestu. Stjarnan lék síðast í úrvalsdeild leiktíðina 2001-2002 og tapaði þá öllum leikjum sínum í deildinni.
Hvernig líst þér á næstu leiktíð í Iceland Express deildinni?
Bara mjög vel. Þetta lið fór upp árið 2001 og þá með marga leikmenn innanborðs sem eru ennþá að leika með liðinu. Munurinn núna og þá er að þessir leikmenn eru reynslunni ríkari núna en flestir þeirra voru aðeins tvítugir að aldri síðast. Nú er meðalaldurinn í liðinu um 24 ár sem þýðir að menn hafa aðeins meiri reynslu undir beltinu. En það er ljóst að styrkleikamunirinn á milli úrvalsdeildar og 1. deildar er þó nokkur og við þurfum því að berjast fyrir hverju stigi. En ég hef fulla trú á að liðið nái að standa sig með prýði.
Hvort eða hvernig leikmönnum þarf Stjarnan að bæta við sig fyrir átökin á næsta ári?
Líklega þurfum við að styrkja liðið eitthvað, en það er þó ekki búið að ákveða hvernig. Líklega þarf þó að hafa reynslumikinn og sterkan bakvörð og einnig er spurning með stóran mann undir körfuna. En við erum að skoða þessi mál og skoðum þá kosti sem eru í stöðunni.
Verður Bragi Magnússon áfram með liðið?
Við höfum spjallað við Braga en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Þetta er í vinnslu eins og er og það kemur í ljós fljótlega hvort hann heldur áfram með liðið. Bragi náði mjög góðum árangri með liðið eftir að hann tók við því um mitt tímabil og engin ástæða til að ætla annað en að hann gæti gert góða hluti með strákana í úrvalsdeildinni.
{mosimage}
(Gunnar Sigurðsson)
Stjarnan fór lengstu leið upp um deild eftir miður góða deildarkeppni, voruð þið spútnikliðið í vetur í 1. deild?
Reyndar settum við markið mjög hátt í byrjun og ég held að önnur lið hafi búist við okkur sterkari en raunin svo varð við upphaf tímabilsins. Enda með fínt lið sem náði einhverra hluta vegna ekki að spila af eðlilegri getu í byrjun. En ef miðað er við stöðuna um áramótin þá hefur líklega enginn búist við að við myndum fara upp þannig að miðað við það þá erum við spútniklið deildarinnar.
Verða Eiríkur Sigurðsson og Guðjón Lárusson með á næstu leiktíð?
Ég á ekki von á öðru. Þeir eru báðir sterkir leikmenn sem ættu að geta gert góða hluti í úrvalsdeild. Guðjón búinn að vera meiddur í allan vetur, en mér skilst að hann sé að ná sér og ætli að fara á fullt í sumar. Eiríkur hefur í gegnum tíðina verið mjög óheppinn með meiðsli en er kominn í hörkuform núna og ef meiðslin taka sig ekki upp þá verður hann örugglega sterkur næsta vetur.
,,Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim fjölmörgu stuðningsmönnum Stjörnunnar sem mættu á leikina í úrslitunum kærlega fyrir stuðninginn. Þetta virkaði sem vítamínsprauta á strákana og var einn af þeim þáttum sem gerði útslagið í því að liðið sigraði úrslitakeppnina og tryggði sig inn í úrvalsdeild. Hvet svo alla til að mæta á leikina á næstu leiktíð og styðja strákana. Áhugi fyrir körfubolta er að aukast í Garðabænum og hann á vonandi eftir að aukast enn meira þegar Stjarnan spilar á meðal þeirra bestu," sagði Gunnar að lokum.
Unnið upp úr viðtali við Gunnar sem birtist í Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi í dag – www.vikurfrettir.is – Myndirnar tók Valur Jónatansson, ljósmyndari og blaðamaður hjá Víkurfréttum – [email protected]