Það var vel mætt á nágrannaslag ÍA gegn Skallagrím þrátt fyrir vonsku veður og gular viðvaranir.
Gangur leiks
ÍA hóf leikinn vel og komust fljótt í 10 stiga forystu 17 – 7. Borgnesingar fóru þá í svæðisvörn og náðu þannig að hægja á sóknarleik Skagamanna og koma sér inn í leikinn. Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta 26 – 26. Baráttan hélt áfram í byrjun annars leikhluta, en Skagamenn náðu svo að síga fram úr og enduðu leikhlutann á glæsilegri troðslu frá Kinyon Hodges um leið og flautan gall. Staðan í hálfleik 57 – 44 fyrir ÍA.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í 3.leikhluta en Skagamenn náðu að halda þeirri forystu sem þeir höfðu náð að byggja upp. Í upphafi 4. leikhluta var staðan 83 – 71 fyrir ÍA og náðu Borgnesingar ekki að saxa á forskot Skagamanna að neinu ráði, lokastaðan 104 – 88 fyrir ÍA.
Molar
-ÍA er 8 – 0 á heimavelli í deildinni á þessu tímabili.
-Skallagrímur skoraði fyrstu körfu leiksins og var það í fyrsta skipti sem ÍA lenti undir í leik á þessu ári.
– Bæði liðin tóku 40 tveggja stiga skot en hittni Skagamanna var mun betri, 68% á móti 52% hjá Skallagrím.
– Bæði liðin voru með 81% vítanýtingu.
– Skagamenn höfðu töluverða yfirburði í frákasta baráttunni, tóku 44 fráköst á móti 30 hjá Skallagrím.
-Leikmenn ÍA voru með 131 í framlag á móti 89 hjá Skallagrím.
-Allir leikmenn beggja liða á skýrslu komu við sögu í leiknum.
-Tvær stelpur unnu sér inn inneign í Kallabakarí með því að hitta stemmingsskoti á milli leikhluta.
Hvað svo?
Næsti leikur Skagamanna er úti gegn Snæfelli og geta þar með sigri náð fullu húsi stiga í slagnum um Vesturland. Skallagrímur fær hins vegar Þór frá Akureyri í heimsókn.
Myndasafn (Jónas H)
Umfjöllun / Jón Þór