Vatnaskil verða nú í körfuboltanum á Ísafirði þar sem Guðjón Þorsteinsson hefur ákveðið að segja skilið við stjórnarstörf KFÍ en hann hefur um árabil verið helsti prímusmótor þeirra Ísfirðinga í körfunni. Guðjón sem hefur verið viðriðinn körfuna sem leikmaður, þjálfari og stjórnarmaður síðustu þrjá áratugi hjá UMFB og KFÍ. Hann sat einnig í stjórnum Íþróttabandalags Ísfirðinga og Héraðssambands Vestfriðinga og var starfandi formaður þess um tíma. Guðjón vendir nú kvæði sínu í kross við almenn félagsstörf fyrir vestan til þess að geta einbeitt sér að verkefnum sínum sem stjórnarmaður hjá Körfuknattleikssambandi Íslands. Guðjón mun þó áfram þjálfa allra yngstu iðkendur á Ísafirði.
Guðjón hefur verið búsettur á Ísafirði síðan árið 1980 en hann lék m.a. með KFÍ, UMFB, KR og Njarðvík á sínum tíma og hefur marga fjöruna sopið í íslenska boltanum. Hann hefur gefið sjálfum sér viðurnefnið ,,þingrotta“ og jafnan liðtækur og fyrirferðamikill á sambandsþingum KKÍ. Að eigin sögn sagðist Guðjón síðast hafa misst af KKÍ þingi þegar Ómar hafði hár eins og hann komst að orði. En grínlaust sagðist hann taka þingstörfum alvarlega og finnst alltaf jafn gaman að mæta þar til skrafs og ráðagerða með félögum sínum innan hreyfingarinnar.
,,Körfuboltinn fyrir vestan er í gríðarlega góðum höndum og þar er valið fólk í hverju rúmi sem vinnur faglega og er með góða framtíðarsýn og því tel ég gott og þæglilegt að stíga út og leyfa þessu frábæra fólki að njóta sín og fái vinnufrið.“
Hann heldur áfram og segir; ,,Ef fólk les ársskýrslu félagsins kemur berlega í ljós hveru öflugt þetta fólk var í vetur undir mikilli pressu og þau koma til með að sýna mun meira næstu ár. Mér er því fullstætt á því að einbeita mér meira að störfum fyrir sérsambandið (KKÍ) í þágu íþróttarinnar um allt land fæ ég til þess áframhaldandi umboð,“ sagði Guðjón sem bíður spenntur eftir sambandsþingi KKÍ sem haldið verður á Sauðárkróki dagana 6. og 7. maí næstkomandi.
,,Ég á ekki vona á því að þetta verði átakaþing, ég á samt von á því að þetta verði kröftugt og málefnanlegt. Það er svo á þingum sem ég hef setið að oft hefur verið talað um átakaþing, en svo þegar fólk kemur saman og ræðir málin þá komast þingfulltrúar ávallt að niðurstöðu sem er best fyrir KKÍ, ég á ekki von á neinni breytingu þar á núna,“ sagði Guðjón og hvetur fólk að sækja þing KKÍ sem að þessu sinni er í Skagafirði 6 og 7 maí.
Mynd/ [email protected] – Það er aldrei langt í brosið hjá Guðjóni