15. umferð í Bónusdeild kvenna hófst í kvöld, þar á meðal tóku Valskonur á móti Aþenu.
Mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið, Valskonur vilja tryggja sig í umspilið og Aþena í harðri botnbaráttu. Leikurinn sjálfur var leikur ákafra varna, Valur var með nauma forystu nánast allan leikinn, voru samt hársbreidd frá því að tapa leiknum, en náðu að landa góðum sigri 63-61.
Karfan spjallaði við Guðbjörgu Sverrisdóttur leikmann Vals eftir sigurinn í N1 höllinni. Guðbjörg átti flottan leik fyrir Val í kvöld, en á um 28 mínútum spiluðum var hún með 10 stig, 6 fráköst, þar sem eitt frákastanna var varnarfrákast á ögurstundu fyrir Val í þessum spennuleik og þá setti hún í kjölfarið lokastig Vals í leiknum af vítalínunni.
Þá var einnig um tímamót að ræða fyrir Guðbjörgu, sem nú er leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi með 383 leiki á 19 tímabilum, en Karfan vill nýta tækifærið og óska henni til hamingju með þetta frábæra afrek. Með leiknum tók hún framúr Sigrúnu Ámundadóttur sem er nú í öðru sæti með 382 leiki.