spot_img
HomeFréttirGrjótharður sigur Íslands á sterku liði Ungverjalands

Grjótharður sigur Íslands á sterku liði Ungverjalands

Íslenska kvennalandsliðið mætti því ungverska í forkeppni Evrópukeppninnar árið 2017 í Laugardalshöll í kvöld. Fyrirfram var við því búist að um erfiðan leik yrði að ræða hjá okkar konum en þær töpuðu fyrri leik liðanna í Ungverjalandi í nóvember sl.

 

Íslenska liðið hóf leik af krafti með Helenu Sverrisdóttur í broddi fylkingar sem skoraði 15 stig í 1. hluta fyrir Ísland. Helena hitti út um allt á vellinum, en þær ungversku veittu henni ákaflega mikið svigrúm til aðgerða í 1. hluta. Náði Ísland 12 stiga, 22-10 mun þegar líða fór á lok 1. hluta en þá tók við allt of langur stigalaus kafli hjá liðinu á meðan þær ungversku sóttu á. Gestirnir náðu að saxa niður muninn í 7 stig  áður en flautan gall í lok 1. hluta.

 

Örlítið hikst kom í sóknarleikinn hjá íslenska liðinu í 2. hluta en þær enduðu hann á góðri siglingu og fóru í búningsklefana í hálfleik með 11 stiga forystu 46-35.

 

Sömu sögu var að segja um byrjun seinni hálfleiks þar sem þær íslensku ætluðu ekkert að gefa undan heldur juku á. Sóknarleikurinn gekk eins og vel smurð vél, boltinn gekk manna á milli þar til besta skotið fannst og fastur varnarleikur spilaður þar sem ekkert var gefið eftir. Helena fór út af þegar tvær mínútur voru eftir af 3. hluta og það dugði Ungverjalandi til að skora 10 stig í röð.

 

Síðustu 10 mínúturnar gerðu gestirnir tilraun til að snúa leiknum við en þær íslensku höfðu engan áhuga á að gefa neitt eftir. Agaður og skynsamur leikur íslenska liðsins á lokamínútum leiksins gerði út um vonir gestanna að komast frá landi með stigin tvö en leiknum lauk með 10 stiga sigri Íslands, 87-77.

 

Helena Sverrisdóttir átti frábæran leik fyrir Ísland með 29 stig, 16 fráköst og 8 stoðsendingar. Hún fór yfir 100 stoðsendinga múrinn í Evrópukeppninni með sinni fyrstu í kvöld. Helena skaut 5/8 í þristum í leiknum. Gunnhildur Gunnarsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir lögðu sitt fram einnig með 14 og 12 stig auk þess sem Pálína var að hitta afburðavel fyrir utan með 4/7 í þristum. Frábær liðsheild hjá íslenska liðinu og framlag frá öllum sem inn á komu.

 

Hjá Ungverjalandi var Tijana Krivacevic sú eina sem hafði eitthvað fram að bjóða í þessum leik en hún skoraði 24 stig og tók 9 fráköst. Zsofia Fegyverneky bætti við 12 stigum og 7 stoðsendingum. Ungverjaland lék án síns besta leikmanns en það er Fenerbahçe leikmaðurinn og fyrrum WNBA bakvörðurinn Alexandria Quigley. 

 

29 stig Helenu í leiknum eru þau mestu sem skoruð hafa verið í E-riðli í þessari keppni. Þar áður höfðu Krivacevic og Quigley skorað 27 stig. 87 stig Íslands eru þau mestu sem landsliðið hefur skorað í Evrópukeppninni og í fyrsta sinn sem Ísland rýfur 60 stiga múrinn. Leikurinn í kvöld var 40. landsleikur Sigrúnar Ámundadóttur en hún er tólfti leikmaður landsliðsins til að ná þeim leikjafjölda.

 

Úrslit Íslands í forkeppninni:

Ungverjaland 72-50 Ísland
Ísland 55-72 Slóvakía
Portúgal 68-56 Ísland
Ísland 87-77 Ungverjaland 

 

Myndasafn:  Bára Dröfn

Myndasafn: Tomasz Kolodziejski

Fréttir
- Auglýsing -