Í kvöld léku Snæfellingar sinn fyrsta heimaleik í Subwaydeild kvenna á tímabilinu á móti Grindavík og það má segja að umgjörðin hafi verið í hæsta gæðaflokki, hamborgarar á grillinu, kaffi og með‘i og full stúka með stuðningsmannasveitina í forystu.
Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með og ætluðu heimakonur greinilega að lemja örlítið frá sér. Grindavík þó alltaf með yfirhöndina og pressuðu þær Snæfellinga nokkuð stíft sem bruguðst við með því að leysa pressuna nokkuð vel oft á tíðum. Helst ber að nefna góðar innkomur hjá Ingu Sól, Dagnýju og Öddu sem settu stig á töfluna fyrir Snæfell og saman skoruðu þær 20 af 47 stigum liðsins. Það er mikilvægt fyrir Snæfell að fá stig úr mörgum áttum og voandi fyrir Snæfell að þær haldi áfram að sækja á körfuna og setja skotin sín fyrir utan. Það var hins vegar draumakvöld fyrir Katrínu 15 ára leikmann Snæfells að skora sín fyrstu stig í efstu deild.
Grindavíkurliðið er sterkt og með margar ungar og bráðefnilegar stelpur í sínu liði, þær spila harðan bolta og það má sjá handbragð Lalla þjálfara á liðinu. Hann vill læti í sinn leik og stelpurnar berjast fyrir hann. Flott lið sem átti nokkuð þægilegan síðari hálfleik í dag. Þær settu skotin sín í seinni hálfleik, keyrðu upp hraðann og silgdu sigrinum heim í byrjun þriðja leikhluta.
Það verður gaman að fylgjast með Grindarvíkurliðinu í vetur og hljóta þær að stefna á efri hlutann eftir skiptinguna.
Snæfell sýndi batamerki eftir mjög erfiðan fyrsta leik. Þær fá liðstyrk í næstu viku þegar Eva Rupnik, Slóvensk landsliðskona, mætir í Hólminn. Hún á að stykja liðið og gefur þeim án efa aukna reynslu og meiri ró. Nú er að þjappa sér saman og lengja góðu kaflana.
Leikurinn endaði 47 – 93 og lítið hægt að fjalla um hver gerði hitt og þetta. Liðin eru að koma sér í gírinn og vonandi fáum við áframhaldandi stemmningsleiki hérna í Stykkishólmi.