Grindavík tók á móti Haukum í HS Orku-höllinni í kvöld í leik þar sem heimamenn voru með öll tögl og haldir svo til frá upphafi en hleyptu Haukum þó ansi nálægt í lokin, lokatölur 82-75. Grindavík hefur farið vel af stað í deildinni í ár, með 4 sigra í jafnmörgum leikjum, en Haukar eru þá enn aðeins með 1 sigur í 4 tilraunum.
Sóknarleikurinn var mjög stirður hjá Haukum í byrjun og skilaði aðeins 13 stigum. Grindvíkingar voru svo sem að spila ágætis vörn en það var fyrst og fremst hik og óákveðni sem einkenndi sóknarleik gestanna í byrjun. Undir lok fyrsta fóru Haukar að sætta sig við mjög léleg skot og enduðu fyrsta leikhlutann með aðeins 1 þrist í 9 tilraunum.
Ætlar enginn að stilla upp í kerfi hérna?
Það færðist smá líf yfir Haukana í byrjun annars leikhluta, án þess þó að Grindvíkingar væru mjög slegnir út af laginu, og héldu þeir áfram að keyra boltann hratt upp í hvert sinn sem þeir unnu hann. Tvisvar tókst Haukum að sprengja vörn Grindvíkinga algjörlega í tætlur í innköstum en undir lok leikhlutans tók Daníel Guðni þjálfari Grindavíkur leikhlé og náði að stilla sína menn betur af. Kom þá áhlaup frá Grindavík og munurinn fór úr 8 stigum í 15 í örfáum sóknum, staðan svo 47-34 í hálfleik.
Joonas Jarvelainen fór mikinn í liði Grindavíkur þessar fyrstu 20 mínútur, með 16 stig og 6 fráköst og frábæra skotnýtingu. Og það var kannski ekki vanþörf á þar sem Eric Wise spilaði aðeins 7 mínútur í fyrri hálfleik og síðan ekki söguna meir vegna gamalla bakmeiðsla sem virðast hafa tekið sig upp. Haukarnir með 12,5% nýtingu í þristum í hálfleik en Grindavík 41%.
Of lítið og of stutt (that’s what she said)
Haukarnir mættu heldur hressari til leiks í seinni hálfleik og tóku mörg áhlaup þar sem þeir reyndu sitt besta til að snúa leiknum sér í hag en það var alltaf sama sagan, áhlaupin voru of lítil eða of stutt og alltaf náðu Grindvíkingar að svara að lokum. Undir lokin fundu Haukar þó loksins taktinn og urðu lokamínúturnar að sannkölluðum naglbít, munurinn aðeins 2 stig.
Kristinn Pálsson tekur yfir
En lengra komust Haukar ekki, fóru illa af ráðinu sínu í sókninni þegar Austin steig útaf í stöðunni 75-77. Grindvíkingar óðu í sókn og Kristinn Pálsson ákvað að taka leikinn í sínar hendur, henti í stepback move af dýrari gerðinni og negldi þristi og í raun lokaði leiknum. Grindvíkingum væntanlega stórlega létt, en Haukar drullusvekktir en niðurstaðan sennilega sanngjörn þegar upp er staðið.
Týndi sonurinn snýr aftur
Leikurinn í kvöld var fyrsti leikur Ingva Þórs Guðmundssonar með Haukum gegn sínu uppeldisfélagi. Var hann eflaust staðráðinn í að setja mark sitt á þennan leik en að sama skapi voru hans gömlu félagar án vafa staðráðnir í að skemma heimkomuna. Er skemmst frá því að segja að Grindvíkingar sýndu Ingva enga miskunn sem komst aldrei í takt við leikinn. En ég geri nú ekki ráð fyrir öðru en það verði allir vinir á næsta þorrablóti UMFG.