Grindavík tók á móti grönnum sínum hinu megin við Suðurstrandarveginn, Þorlákshafnar Þórsurum í Subway deild karla. Lokatölur urðu, 93-90 eftir að heimamenn leiddu með 11 stigum í hálfleik, 45-34.
Jafnt var til að byrja með á meðan leikmenn fundu taktinn en Grindvíkingar náðu því fyrr og tóku yfirhöndina upp úr miðjum fyrsta fjórðung og leiddu að honum loknum, 21-15.
Arnór Tristan opnað 2. leikhluta með troðslu og allt ærðist í HS Orku höllinni! Vörn gulra var mjög sterk og gestirnir í hinum mestu vandræðum með að skora. Önnur troðsla fylgdi fljótlega hjá hinum geysiefnilega Arnóri og heimamenn virtust ætla stynga af. Lárus þjálfari Þórs tók þá leikhlé og gestirnir náðu vopnum sínum og minnkuðu muninn sem var kominn vel yfir tíu stig. Minnst fór hann í sex en heimamenn áttu lokasprettinn og 11 stigum munaði í hálfleik, 45-34.
Seinni hálfleikur byrjaði jafnt en svo skelltu heimamenn í lás í vörninni, tvisvar sinnum rann skotgluggann út hjá gestunum og oft vilja hraðar körfur fylgja góðri vörn og Lárus tók leikhlé þegar fjórar mínútur voru búnar af seinni hálfleik og staðan orðin 59-43. Þessi íþrótt er hins vegar ótrúleg… Þórsarar tóku síðasta partinn 21-11 og Óli Ól setti meira að segja flautuþrist í lok fjórðungsins! 68-64 fyrir lokabardagann.
Þórsarar héldu áfram á sömu braut og eftir tæpar fjórar mínútur voru þeir komnir yfir, 74-77. Næsti kafli var heimamanna, 8-0 kafli og þeir með fimm stiga forskot og fimm mínútur eftir, 82-77. Körfubolti er oft leikur áhlaupa og gestirnir komu til baka en Grindavík samt við bílstjórasætið. Þegar 1:33 lifðu leiks setti Darwin Davids þrist og minnkaði muninn í eitt stig, 89-88 og Jóhannarnir tóku leikhlé, allt á suðupunkti! Liðin skiptust á stigum og Þórsarar brutu á Basile í stöðunni 92-90 og 14 sekúndur eftir. Hann klikkaði á báðum, Þór náði frákastinu en Deandre Kane virtist stela boltanum en missti hann út af og Þór tók enn eitt leikhléið og 12 sekúndur eftir! Grindvíkingar náðu að stela boltanum og nú klikkaði Basile ekki á báðum og heimamenn unnu sanngjarnan sigur, 93-90.