22:38
{mosimage}
Grindvíkingar komu í kvöld fram hefndum gegn ÍR í Iceland Express deild karla. Grindavík hafði betur í leiknum 81-93 í Seljaskóla þar sem Páll Axel Vilbergsson og Calvin Clemmons fóru fyrir Grindvíkingum. Liðin áttust við síðastliðinn sunnudag í undanúrslitum í Lýsingarbikarnum þar sem ÍR fór með sigur af hólmi eftir framlengingu. Allt annað var að sjá til Grindvíkinga í kvöld samanborið við aðra leiki liðsins undanfarið og leyfði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, minni spámönnum að spreyta sig og skiluðu þeir sínu vel. Hreggviður Magnússon lék aðeins í örfáar mínútur í leiknum með ÍR en hann á við meiðsli að stríða og munaði um minna í liði ÍR.
Páll Kristinsson gerði fyrstu körfu leiksins fyrir Grindavík en á hinum endanum jafnaði Eiríkur Önundarson metin strax í næstu sókn. Liðin voru vör um sig í upphafi og var staðan 6-6 þegar 4 mínútur voru liðnar af leiknum. Calvin Clemmons var að standa sig vel á blokkinni og réðu ÍR-ingar illa við hann. Grindvíkingar höfðu yfir að loknum fyrsta leikhluta 22-24.
Grindvíkingar beittu svæðisvörn í öðrum leikhluta, bæði 2-3 og 3-2 svæðisvörn og þar kann Steinar Arason best við sig. Steinar setti þá niður tvær þriggja stiga körfur fyrir ÍR með skömmum tíma og jafnaði með þeim síðari 35-35. Hægt og bítandi fór svæðisvörn Grindavíkur að þreyta ÍR í sókninni sem nutu ekki aðstoðar Hreggviðs sem farinn var útaf meiddur. Gestirnir sigu hægt og bítandi fram úr þegar vörnin small saman og fóru að hafa betur en ÍR í fráköstum. Calvin Clemmons var að draga vagninn hjá Grindavík í fyrri hálfleik. ÍR-ingar voru ekki nægilega ákveðnir í sóknaraðgerðum sínum og í raun er hægt að segja þetta um bæði lið. Grindavík hafði engu að síður 10 stiga forskot í hálfleik 37-47.
{mosimage}
Páll Axel Vilbergsson hrökk í gírinn í síðari hálfleik og gerði fyrstu fjögur stig þriðja leikhlutans og kom Grindavík í 37-51. Snemma fengu þeir Keith Vassell og Fannar Helgason sína þriðju villu og dró það kraft úr vörn ÍR-inga. Þegar hér er komið við sögu fóru Grindvíkingar aftur í maður á mann vörn og gekk hún vel enda sjálfstraustið komið í varnarlínu liðsins. ÍR var þó aldrei langt undan en Grindvíkingar stjórnuðu hraða leiksins sama hvað Nate Brown reyndi það fyrir hönd ÍR. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 61-71 fyrir Grindavík þar sem Páll Axel dreif sína menn áfram.
{mosimage}
Nýi Bandaríkjamaðurinn, Jonathan Griffin var seigur í fjórða leikhluta sem og Páll Axel en nokkuð hafði þá dregið af Calvin Clemmons en hann skilaði góðu dagsverki í kvöld. Munurinn komst mest í 19 stig í fjórða leikhluta 66-85 þegar Griffin skoraði þriggja stiga körfu og brotið var á honum í leiðinni. Það er fátítt að menn hitti úr þriggja stiga skotinu þegar brotið er á þeim og því synd að Griffin skyldi brenna af vítaskotinu sem hann fékk að auki. Það kom hins vegar ekki að sök og Grindvíkingar fóru með 81-93 sigur af hólmi þar sem ÍR náði að klóra lítið eitt í bakkann í lokin.
Fjarvera Hreggviðs Magnússonar setti stórt strik í reikning ÍR-inga í kvöld en hann er oftar en ekki miðdepillinn í sóknarleik ÍR. Hins vegar verður það ekki af Grindvíkingum tekið að þeir voru að leika vel í kvöld og mun betur en þeir hafa verið að gera undanfarið.
Páll Axel og Jonathan Griffin gerðu báðir 25 stig fyrir Grindavík en Griffin var auk þess með 10 fráköst. Calvin Clemmons gerði 23 stig og tók 15 fráköst. Hjá ÍR var það Nate Brwon sem bar af með 19 stig og 11 fráköst. Næstur honum var Eiríkur Önundarson með 14 stig.
Gangur leiksins:
6-6,16-12,22-24
25-29,36-39,37-47
39-51,44-57,61-71
64-76,68-87,81-93
Frétt og myndir af www.vf.is
{mosimage}