Ármann fékk Grindavík í heimsókn í íþróttahús Kennaraháskólans í gær. Ármenningar voru að spila annan leik tímabilsins hjá sér en þetta var fyrsti leikur Grindvíkinga. Grindavík lagði Ármann nokkuð örugglega, 83-28.
Fyrsti heimaleikur Ármannsstúlkna fór ekki betur en svo að þau voru tekin í kennslustund af liði Grindavíkur. Gestirnir voru leiddir af besta leikmanni deildarinnar, Emblu Kristínardóttir, en hún gældi aðeins við þrefalda tvennu í leiknum (19 stig, 10 fráköst og 6 stolnir boltar) ásamt því að stýra liðinu inni á vellinum og frá bekknum þegar hún var ekki inn á.
Ármann náði að opna leikinn með fyrstu tveimur stigunum en það var í seinasta skiptið í leiknum sem að þær voru yfir. Grindvíkingar svöruðu strax með þristi frá Ólöfu Rún Óladóttur (sem að setti 9 þrista í æfingaleik eftir því sem heimildir herma) og þær gulklæddu leiddu það sem eftir lifði leiks. Þó að Ármann héldi nokkurn veginn í við gestina í fyrsta leikhluta, 13-20, þá varði það ekki lengi.
Grindavíkurstelpurnar héldu áfram að rúlla í næsta leikhluta en Ármenningar snöggkólnuðu. Á rúmum 9 mínútna kafla vildi ekkert skot hjá hinum hvítklæddu heimamönnum detta. 13 skot í röð féllu ekki með þeim og þær náðu aðeins að skora 2 stig í öllum fjórðungnum. Grindvíkingar voru skarpari og hittu úr 61% skota sinna í leikhlutanum og skoruðu 17 stig á móti 2 stigum Ármanns. Staðan í hálfleik: 15-37.
Þriðji leikhlutinn fór betur en sá sem kom á undan fyrir bæði lið. Ármann náði að skora 10 stig en Grindavík svaraði með 19. Gestirnir hittu ekki vel í þessum fjórðungi, 42% skotnýting utan af velli, en Ármann hittu því miður verr, 27% utan af velli.
Í seinasta leikhlutanum hefði maður haldið að gestirnir myndu slaka á, en þær héldu áfram að grind-a í vörninni og sókninni og luku leik með 3-27 lokaleikhluta. Staðan í lok leiksins því 28-83, gestunum að sunnan í vil.
Það sem má lesa úr tölfræðinni og ef fylgst er með leiknum sjálfum er að Grindavík hafði nægilega breiðan hóp til að valta yfir Ármenninga sem eru einfaldlega ekki með nógu marga leikmenn sem að geta skilað nógu mörgum mínútum. Um leið og byrjunarliðið þreyttist gengu Grindvíkingar á lagið. Þær hafa fleiri leikmenn í betra formi sem hafa flestar reynslu af því að spila í efstu deild kvenna.
Miðað við þennan leik lítur Grindavík mjög vel út, en allar stelpur liðsins spiluðu yfir 10 mínútur og allar skiluðu jákvæðu framlagi. Gæðin sjást líka í að Ármann tapaði 21 boltum gegn 6 hjá Grindavík. Jákvæður hlutur sem má þó nefna er að heimamenn fráköstuðu jafn vel og gestirnir (38 fráköst hjá báðum liðum) og tóku fleiri sóknarfráköst (13 á móti 8). Mögulega eitthvað til að byggja á þar.
Þá eru Grindvíkingar efstar í deildinni með betri stigatölu en Þór Akureyri og Fjölnir. Ármann er þá neðst í deildinni og ennþá að leita að fyrsta sigrinum. Aðeins KR-ingar og Hamarsstúlkur eiga eftir að opna tímabilið sitt og þá fer loks að skýrast hvar öll liðin standa, en ljóst þykir að Grindavík eru sterkastar í deildinni sem stendur.
Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson