spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar bitu frá sér í síðari hálfleik

Grindvíkingar bitu frá sér í síðari hálfleik

 
Tvö Grindavíkurlið mættu til leiks í Dalhús í kvöld, það fyrra gerði upp á bak fyrstu 20 mínúturnar en það síðara hélt Fjölni í 27 stigum í síðari hálfleik. Grindavík lagði Grafarvogspilta 69-86 í Iceland Express deild karla í kvöld og gerðu svo með fantagóðum varnarleik í síðari hálfleik. Ryan Pettinella var stigahæstur í liði gestanna með 20 stig og 9 fráköst. Ingvaldur Magni Hafsteinsson var stigahæstur í liði Fjölnis með 21 stig og 5 fráköst.
Ingvaldi Magna var heit höndin í upphafi leiks í Dalhúsum en kappinn plantaði þremur þristum í fyrsta leikhluta þar sem heimamenn voru töluvert betri en gestir sínir sem léku með nokkrum sofandahætti. Upphafsmínúturnar voru reyndar nokkuð mistækar á báða bóga en Ægir Þór Steinarsson kom Fjölni í 16-8 með þriggja stiga körfu og á meðan var Ryan Pettinella eiginlega eina sóknarógn gestanna.
 
Magni setti tvo þrist í jafn mörgum sóknum undir lok leikhlutans og kom Fjölni í 26-16 og þannig stóðu leikar eftir fyrstu 10 mínúturnar.
 
Skotnýting gestanna var skelfileg fyrir utan bogann, Grindvíkingar hittu reyndar ekki úr þriggja stiga skoti í 11 tilraunum í fyrri hálfleik og þykir það með eindæmum slakt á þeim bænum þar sem fyrirfinnast einhverjar mestu hríðskotabyssur íslenska boltans.
 
Þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta fékk Ólafur Ólafsson dæmt á sig tæknivíti fyrir mótmæli og Grindvíkingar voru hér afar ósáttir við sinn hlut í leiknum og töluverð harka bættist við leikinn. Gestunum virtist ekkert mislíka það og hófu að saxa á forskot heimamanna, hættu að skjóta þriggja stiga skotum og sóttu inni í teiginn, unnu með þessu leikhlutann 20-16 og staðan í hálfleik því 40-33 Fjölni í vil.
 
Ægir Þór Steinarsson var með 12 stig í liði Fjölnis í leikhléi en Ryan Pettinella var með 13 í liði Grindavíkur.
 
Örvar Kristjánsson var ósáttur við sína men í upphafi seinni hálfleiks, Grafarvogspiltar vildu helst bara skjóta fyrir utan en skipperinn vildi ráðast á körfuna og lét því í sér heyra. Í miðri óánægju þjálfarans tók Páll Axel Vilbergsson upp á því að fara að hitta úr þriggja stiga skoti fyrir gestina, því fyrsta í leiknum og eftir 7-0 áhlaup voru Grindvíkingar komnir yfir 42-43.
 
Framan af þriðja leikhluta vildu Grindvíkingar finna Kelly í teignum þar sem Ægir Þór, höfði minni, var að dekka hann. Það gekk þolanlega hjá Grindavík en brátt mættust stálin stinn, varnir liðanna þéttust og minna var skorað, í stöðunni 49-49 tóku gestirnir þó við sér, Kelly sótti grimmt á körfu Fjölnis og fékk tvisvar sinnum í röð villu og körfu góða og gestirnir leiddu 56-61 fyrir lokasprettinn og unnu því leikhlutann 14-25.
 
Leiðir skildu snemma í fjórða leikhluta, Grindvíkingar komust í 60-73 með þriggja stiga körfu frá Páli Axeli Vilbergssyni og strax í næstu sókn gestanna var það Björn Steinar Brynjólfsson sem mætti með annan þrist og staðan 60-76. Gestirnir voru komnir í stuð eftir dræma skotnýtingu liðsins í fyrri hálfleik og fátt ef nokkuð virtist geta stöðvað þá og sú varð raunin, lokatölur 67-84 í Grafarvogi Grindavík í vil sem héldu Fjölni í 27 stigum í síðari hálfleik!
 
Með sigrinum er Grindavík enn í 2. sæti deildarinnar og nú með 16 stig en Fjölnir er í 7. sæti með 8 stig.
 
Heildarskor:
 
Fjölnir: Ingvaldur Magni Hafsteinsson 21/5 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 17/9 fráköst/5 stoðsendingar, Ben Stywall 14/10 fráköst, Jón Sverrisson 10/7 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 5, Sindri Kárason 2, Sigurður Þórarinsson 0, Arnþór Freyr Guðmundsson 0, Leifur Arason 0, Trausti Eiríksson 0, Einar Þórmundsson 0.
 
Grindavík: Ryan Pettinella 20/9 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 16/10 fráköst, Ólafur Ólafsson 14/5 fráköst, Jeremy Kelly 14/7 fráköst/5 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 10, Björn Steinar Brynjólfsson 6, Kjartan Helgi Steinþórsson 2, Ómar Örn Sævarsson 2, Guðlaugur Eyjólfsson 2/5 fráköst, Ármann Vilbergsson 0, Egill Birgisson 0, Helgi Björn Einarsson 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson
 
Ljósmynd/ Jón Björn ÓlafssonGuðmundur Bragason og Ólafur Ólafsson fagna hér góðum sigri í Grafarvogi.
 
Umfjöllun: [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -