Grindavík varð bikarmeistari í 9. flokki stúlkna í kvöld eftir að hafa sigrað Njarðvík í hörkuleik í Laugardalshöllinni, 46 – 41. Byrjunarlið Grindavíkur skipuðu Elísabet María Magnúsdóttir, Ólöf Rún Óladóttir, Vigdís María Þórhallsdóttir, Andra Björk Gunnarsdóttir og Arna Sif Elísdóttir en byrjunarlið Njarðvíkur skipuðu Dagrún Inga Jónsdóttir, Jenný Lilja Benediktsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir, Eva Sól Einarsdóttir og Alexandra Eva Sverrisdóttir.
Njarðvíkurstúlkur byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu fimm stig hans, en þar voru að verki Jóhanna Lilja Pálsdóttir og Alexandra Eva Sverrisdóttir. Gulklæddar Grindavíkurstúlkur komust þá í gang og náðu að jafna leikinn 5-5 þegar um þrjár mínútur voru eftir með stigum frá Unu Rós Unnarsdóttur, Ólöfu Rún Óladóttur og Elísabetu Maríu Magnúsdóttur. Þær gulklæddu leiddu síðan eftir fyrsta leikhluta með 2 stigum, 9-7.
Mikil barátta og sterkar varnir einkenndu byrjun annars leikhluta og þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af honum höfðu bæði stig leikhlutans komið af vítalínunni, eitt fyrir hvort lið. Þá setti Arna Sif Elísdóttir niður tvö stig fyrir Grindavík úr opnu sniðskoti og Ólöf Rún fylgdi á eftir með fallegri þriggja stiga körfu. Grindavík komið með 7 stiga forystu, 15-8. Elísabet María bætti um betur fyrir Grindavík og setti niður tvö stig eftir mikla baráttu í teignum og fjögur sóknarfráköst þeirra gulklæddu í sömu sókninni. Njarðvíkurstúlkur settu næstu fjögur stig sín af vítalínunni. Alexandra Eva reif niður sóknarfrákast fyrir grænklæddar þegar innan við mínúta var eftir af leikhlutanum og skilaði boltanum í körfuna. Munurinn kominn niður í 3 stig. Gulklæddar setti niður síðustu stig fyrri hálfleiks og leiddu að honum loknum með 5 stigum, 24-19.
Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í byrjun seinni hálfleiks og voru komnar með 10 stiga forystu um miðbik þriðja leikhluta. Falleg karfa frá Jennýju Lovísu braut ísinn fyrir Njarðvíkinga og minnkaði muninn niður í 8 stig, 31-23. Grindvíkingar náðu mest 12 stiga forystu í leikhlutanum eftir að þær galopnuðu vörn Njarðvíkur með fallegu spili og Unnur G. Þórarinsdóttir setti niður auðvelt lay-up. Njarðvíkurstúlkur sóttu grimmt að körfunni í lok leikhlutans, enduðu ítrekað á vítalínunni og náðu muninum niður í 8 stig fyrir lok hans, 35-27.
Alexandra Eva setti tvö stig fyrir grænklæddar í upphafi fjórða leikhluta eftir mikla baráttu undir körfunni og tvö sóknarfráköst Njarðvíkinga. Gulklæddar köstuðu boltanum útaf í næstu sókn og Njarðvíkingar áttu því kost á að komast enn nær Grindvíkingum. Jenný Lovísa setti tveggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga en brotið var á henni í skotinu. Hún setti niður vítið og munurinn kominn niður í þrjú stig. Grindvíkingar voru þó ekki á því að hleypa grænklæddum nágrönnum sínum mikið nær og setti Una Rós Unnarsdóttir niður þrjú stig fyrir þær. Njarðvíkurstúlkur stóðu á sínu og settu næstu fjögur stig leiksins og munurinn einungis tvö stig þegar tæpar 5 mínútur voru til leiksloka. Ólöf Rún hélt þá áfram að raða inn stigunum fyrir Grindavík, skoraði næstu fimm stig leiksins og jók muninn í 7 stig, 43-36. Gulklæddar héldu forystunni allt til enda leiks og unnu hann að lokum með 5 stigum, 46-41.
Lykilmaður leiksins var valin Ólöf Rún Óladóttir leikmaður Grindavíkur sem átti stórkostlegan leik, skoraði 23 stig og tók 9 fráköst.