spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar áttu engin svör gegn sprækum Haukum

Grindvíkingar áttu engin svör gegn sprækum Haukum

Það má segja að Haukum líði vel í Röstinni en nýliðarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu stórsigur á liði Grindavíkur 63-82 í kvöld í Iceland Express-deildinni. Grindvíkingar voru varla skugginn af sjálfum sér á meðan Haukaliðið barðist um alla bolta og gáfu ekkert eftir.

 
Sem fyrr spilaði lið Grindavíkur án kana en von er á honum í næsta leik samkvæmt þjálfara liðsins, Helga Jónasi Guðfinnssyni. Sævar Ingi Haraldsson lék ekki með Haukaliðinu en hann á við meiðsli að stríða og ekki er vitað hvenær hann mun snúa aftur.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en leiddu Haukar þó nær allan leikhlutann en þó aldrei með meira en fjórum stigum. Liðin skiptust á að skora og var í raun lítið um mistök hjá báðum liðum. Grindvíkingar komust yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum en Haukar náðu yfirhöndinni á ný aftur þegar rúm mínúta var eftir og leiddu með fimm stigum þegar leikhlutanum lauk, 18-23.
 
Haukar náðu fljúgandi starti í öðrum leikhluta og eftir fjögurra mínútna leik leiddu Haukar með 16 stigum. Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé og leikur heimamanna batnaði til muna að leikhléinu loknu. Grindvíkingar minnkuðu muninn í níu stig og tók þá Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka, leikhlé.
 
Áfram gekk ekkert upp hjá Grindvíkingum á meðan Haukar áttu svör við flestum varnartilburðum þeirra og skoruðu nánast að vild. Haukar keyrðu muninn aftur upp og munaði 13 stigum á liðunum í hálfleik 35-48.
 
Haukar héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta og spiluðu hörku vörn á heimamenn. Náðu þeir til að mynda að keyra muninn upp í 18 stig um miðjan leikhlutann. Þegar spilað er við lið eins og Grindavík þarf að hafa hugann við verkefnið allan tímann og gefa aldrei eftir en Haukar gáfu aðeins eftir og tveimur og hálfri mínútu síðar voru Grindvíkingar búnir að minnka muninn niður í 10 stig. Slaki kafli Haukar var klárlega mættur í húsið og nýttu heimamenn sér það. Haukar náðu þó að keyra muninn upp í 15 stig áður en yfirlauk en karfa frá Ryan Pettinella á loka sekúndum leikhlutans minnkaði muninn í 13 stig og Haukar leiddu því, 52-65.
 
Grindavík opnaði fjórðaleikhluta með stæl. Þorleifur Ólafsson keyrði upp að körfu Hauka og setti boltann niður, brotið var á honum og hann fékk skot að auki. Munurinn var því 10 stig en Haukar létu það ekki á sig fá. Áfram héldu þeir að spila stífa vörn og stíga vel út. Þegar innan við fjórar mínútur voru eftir leiks leiddu Haukar með 19 stigum, 59-78. Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu að klóra í bakkann en ekkert gekk og Haukar innbyrðu 19 stiga sigur á Grindavík, 63-82.
 
Gerald Robinson var með tröllatvennu en hann skoraði 20 stig og tók 23 fráköst. Semaj Inge var næstur honum með 19 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og Haukur Óskarsson setti 11 stig.
 
Hjá Grindavík var Páll Axel Vilbergsson stigahæstur með 20 stig og 6 fráköst og Ryan Pettinella var með myndarlega tvennu, 16 stig og 17 fráköst.
 
 
 
Mynd/Liðsmenn Hauka fögnuðu sigri í Röstinni í kvöld – fyrst liða í vetur – [email protected]
 
Fréttir
- Auglýsing -