Grindvíkingar leiddu nær allan leikinn í gærkvöldi þegar Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára heimsóttu Keflavík í T.M.-Höllina og höfðu þar 83-93 sigur á gestgjöfum sínum í Ljósanæturmótinu.
Gulir gestirnir byrjuðu vel og settu niður hvern þristinn á fætur öðrum. Keflvíkingar náðu þó að komast af hælunum og voru aldrei langt undan. Grindvíkingar voru þó sterkari aðilinn í lokin og geta þakkað góðri skotnýtingu fyrir sigurinn í gær.
Glögg merki eru um breyttan leikstíl hjá Keflavík með tilkomu nýja þjálfarans Andy Johnston sem rúllaði hratt og mikið á mönnum en ljóst er að liðið á enn eitthvað í land með að stilla sig saman.
Arnar Freyr Jónsson var stigahæstur í liði Keflavíkur með 18 stig, Magnús Þór Gunnarsson gerði 14 og Almar Guðbrandsson var með 11 stig. Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson með 26 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 22.
Keflvíkingar hafa nú sett inn skemmtilegt „fail“ myndband þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson miðherji Grindavíkur og fyrrum liðsmaður Keflavíkur virðist hafa týnt fluggírnum sínum.