spot_img
HomeFréttirGrindavíkursigur í Garðabæ (Umfjöllun)

Grindavíkursigur í Garðabæ (Umfjöllun)

23:04 

{mosimage}

 

 

 

(Griffin reyndist drjúgur á endasprettinum í kvöld fyrir Grindavík) 

 

 

 

Grindvíkingar gerðu góða ferð í Garðabæ í kvöld þegar þeir sigruðu nýliða Stjörnunnar, 86-92. Leikurinn var æsispennandi. Bæði lið höfðu 50 % sigurhlutfall eftir tvo leiki og virtust ólm í að landa öðrum sigri. 

 

Liðin komu bæði mjög ákveðin til leiks og skiptust á að hafa forystu fremst af. Páll Axel Vilbergsson var sjóðheitur í liði Grindavíkur og þá var Igor Beljanski einnig mjög drjúgur í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar voru þó skrefinu á undan en frábær troðsla Fannars Helgasonar kveikti í Stjörnumönnum og þeir enduðu leikhlutann sterkt, staðan var 27-27 eftir einn leikhluta.

 

Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta og skiptust liðin á að hafa eins til tveggja stiga forskot. Stjörnumenn með Dimitar Karadzovski í broddi fylkingar komust þó í gott forskot um miðjan leikhlutann. Grindvíkingar voru þó ekki af baki dottnir og þeir komust aftur inn í leikinn. Góður endakafli Grindvíkinga tryggði þeim svo eins stigs forskot þegar liðin gengu til búningsklefa, 47-48.

 

Þriðji leikhluti var gríðarlega kaflaskiptur. Grindvíkingar héldu uppteknum hætti og skoruðu þeir Jonathan Griffin og Adama Darboe sína þriggja stiga körfuna hvor og Grindvíkingar komnir sjö stigum yfir strax í byrjun og Bragi Magnússon þjálfari Stjörnunnar tekur leikhlé.  Þetta leikhlé skilaði sínu því Stjarnan skoraði eftir það fimmtán stig gegn einungis þrem stigum Grindvíkinga og staðan skyndilega orðin 62-57, Stjörnunni í vil. Þá tóku Grindvíkingar aftur við sér og unnu síðustu mínúturnar, 12-5 og leiddu með tveim stigum fyrir lokafjórðunginn. Staðan 67-69

 

Bæði lið virtust mjög ákveðin í byrjun lokafjórðungsins. Grindvíkingar hirtu flest fráköst en Stjörnumenn spiluðu ágæta vörn, en varnir liðanna voru heldur lekar í leiknum í kvöld. Allt fór þó í baklás hjá Stjörnunni þegar Steven Thomas náði sóknarfrákasti en var sakaður um að hafa brotið á Igor Beljanski á leið sinni upp. Sló þetta á lið Garðbæinga og sú ágæta vörn sem þeir höfðu spilað varð allt í einu lekari en svissneskur ostur. Grindvíkingar fengu við þessa villu skotrétt og voru duglegir við að sækja villur síðustu mínútuna og tryggðu sér að lokum sex stiga sigur 86-92.

 

Stigahæstur hjá Stjörnunni var Dimitar Karadzovski en hann skoraði 24 stig, þar af 6 þriggja stiga körfur. Einnig var Mujo Taci að hitta vel en hann skoraði 14 stig í sínum öðrum leik fyrir liðið. Stigahæstir Grindvíkinga voru Páll Axel með 23 stig og Jonathan Griffin setti 20

 

Leikurinn hefði í raun getað dottið hvernig sem var en ljóst er að Stjörnumenn verða erfiðir heim að sækja í vetur á heimavöll sinn, Ásgarð. 

Tölfræði leiksins

 

Texti: Elías Karl Guðmundsson

Mynd: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -