spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGrindavík vann Val - Valsarar í fallsæti

Grindavík vann Val – Valsarar í fallsæti

Grindavík tók á móti Val í Smáranum í kvöld í 10. umferð Bónus deildar karla. Eins og alþjóð veit var hér um að ræða endurtekningu á úrslitakeppninni frá því í fyrra, en Valur og Grindavík áttust þá við í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn 2024. Valur vann oddaleikinn og þar með titilinn þá, en annað var uppi á teningnum í kvöld.

Grindavík vann vel unninn sigur á Valsmönnum, 97-90, í æsispennandi leik.

Fyrir leik

Bæði lið söknuðu nokkurra leikmanna fyrir leikinn. Hjá Grindavík vantaði ennþá Odd Rúnar Kristjánsson ásamt því að Nökkvi Már Nökkvason var frá vegna veikinda. Grindvíkingar höfðu þar að auki rekið Jason Gigliotti og ráðið í staðinn franska miðherjann Jason Aboudou.

Valsmenn voru ennþá án Kristófers Acox en vantaði líka í kvöld Ástþór Svalason. Þeir höfðu hins vega nýverið bætt við sig Adam Remstadt, sænskum framherja, sem hafði spilað með þeim í sigri í bikarkeppninni, einmitt gegn Grindavík fimm dögum fyrir þennan leik.

Gangur leiks

Liðin byrjuðu bæði af miklum sóknarþunga og staðan var orðin 16-16 eftir u.þ.b. fjórar mínútur. Lítið um varnir en góðar sóknir. Taiwoo Badmus, sem skoraði fyrstu körfu leiksins eftir 3 sekúndur spilaðar, hafði þá skorað 10 stig nú þegar.

Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta var staðan 25-23 og ljóst að Grindavík og Valur voru mætt í alvöru föstudagsleik. Deandre Kane gerðist m.a.s. svo kræfur að setja þriggja stiga körfu úr hliðarskrefi til að ljúka fjórðungnum, flautukarfa par exelans.

Í öðrum leikhlutanum hélt veislan áfram. Adam Remstadt setti Ólaf Ólafsson á plakat í hraðaupphlaupi með öflugri troðslu og uppskar villu að auki, sem hann nýtti sömuleiðis. Hann átti eftir að reynast Grindvíkingum erfiður á köflum en þeir gulklæddu höfðu svar við stærð Remstadts, Jordan Aboudou. Aboudou var á tímum sem jötunn inni á vellinum og keyrði til að mynda Badmus niður og setti síðan niður snyrtilegt sniðskot.

Grindvíkingar misstu á kafla aðeins móðinn í öðrum fjórðungnum á meðan að Valsmenn sóttu í sig veðrið. Mortensen var ískaldur framan af og setti ekki skot utan af velli allan fyrri hálfleikinn á meðan að Sherif Ali Kenney var ágætur fyrir rauðklæddu gestina.

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik gerðist það leiðinlega atvik að Kári Jónsson, leikstjórnandi Vals, fékk Mortensen á sig í frákastabaráttu og það kom einhver slinkur á löppina hans. Hann varð að yfirgefa völlinn og kom ekki meira inn á í leiknum, mikil blóðtaka þar fyrir Val. Liðsfélagar hans gátu haldið forystunni og þrátt fyrir ævintýralegt stökkskot hjá Óla Óla til að ljúka hálfleiknum þá skildu liðin 48-51 í hálfleik, Val í vil.

Þriðji leikhlutinn var alfarið Grindvíkinga. Þeir komu út einbeittir og sterkir varnarlega sem skilaði sér í fjöldann allan af hraðaupphlaupum og góðum körfum. Á sama tíma fór hausinn aðeins hjá Valsmönnum sem fengu þó nokkrar tæknivillur dæmdar á sig í þriðja leikhluta, allt fyrir kvart (fengu m.a.s. áminningu í leikhlutanum líka).

Kane setti 7 stig í röð á einum kafla leikhlutans og smá orka var aftur komin í Grindavík. Valsmenn gátu lítið gert og leikhlutanum lauk 79-66. Heimamenn höfðu skorað 31 stig gegnum 15 stigum hjá Val.

Valsmenn náðu sér fljótlega eftir slakan fjórðung og hófu að minnka muninn hægt og rólega. Grindavík reyndi að finna aftur orkuna fyrir áhlaup en þá voru gestirnir fljótir að slökkva á því og áfram hélt endurkoman. Á tímabili gat aðeins Sherif skorað fyrir Valsmenn, en það dugði til og þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks kom Booker inn með þrist til að setja muninn í fimm stig, 89-84.

Badmus setti skömmu seinna þrist til að minnka muninn í þrjú stig en nær komust Valsmenn ekki og að lokum urðu þeir að brjóta á Grindvíkingum til að stöðva klukkuna og þá loks settu heimamenn vítaskotin sín sem gerði út um leikinn. Lokastaðan var eins og áður sagði 90-97, Grindvíkingum í vil.

Tölfræði leiksins

Vendipunkturinn

Í stöðunni 90-87 klikkuðu Grindvíkingar á skoti og kraðak var um hver næði boltanum. Á ögurstundu, þegar útlit var fyrir að Badmus næði frákastinu og væri að fara á fullri ferð niður völlinn, þá kom Kristófer Breki til bjargar. Badmus sá Kristófe Breka ekki nógu snemma og rulluspilarinn náði að rífa boltann af stjörnuleikmanni Vals á hárréttu augnabliki og fá aukasókn.

Devon Tomas nýtti aukasóknina til að næla sér í körfu og villu að auki á Kidda Páls. Hann setti vítaskotið og þar með var staðan orðin 93-87 og tæp mínúta eftir. Þarna var leikurinn. Sóknarfrákast Kristófers Breka sem leiddi til þriggja stiga körfu.

Atkvæðamestir

Devon Tomas var bestur fyrir Grindvíkinga í kvöld með 31 stig, 7 fráköst, 9 stoðsendingar og 3 stolna bolta. 36 framlagspunktar, ekki slæmt. Deandre Kane var líka góður með 19 stig og 9 fráköst. Kristófer Breki Gylfason setti síðan 5 þriggja stiga skot niður, 15 stig.

Hjá Val var Frank Aron Booker atkvæðamestur með 12 stig og 10 stoðsendingar. Stigahæstur var Sherif Ali Kenney með 21 stig og á eftir honum kom Taiwoo Badmus með 19 stig. Adam Remstadt var ágætur með 14 stig og 7 fráköst.

Tölfræðimolinn

Það eru margar leiðir til að meta þreytu leikmanna í gefnum leik. Grindvíkingar hafa að jafnaði sett 70% vítaskota sinna í leik en í þessum leik voru þeir lengstan partinn um og í kringum 50% nýtingu. Það var ekki fyrr en undir lokin þegar þeir gátu sett 4 seinustu vítaskotin sín í röð að þeir náðu að hækka prósentuna í 58% í leiknum (14/24 í vítum).

Þeir gulklæddu sluppu líklegast með slaka vítanýtingu vegna þess að þeir tóku tvöfalt fleiri sóknarfráköst en Valsarar, 16 gegn 8. Þessar aukasóknir skiluðu sér í 21 stigum gegn aðeins 6 hjá Val.

Kjarninn

Grindvíkingar eru betri en Valsarar á þessu tímabili en bæði lið hafa enn ekki sýnt sitt rétta andlit. Valsmenn vantar mikilvæga pósta og Grindvíkingar virðast enn vera að leita að réttri blöndu leikmanna á tíðum, eða þá að þeir þurfa bara fleiri leikmenn heila í liðinu á sama tíma.

Einn leikur er eftir og síðan stutt jólafrí hjá báðum liðum. Annað liðið er með heimavallarréttinn í úrslitakeppni og hitt er að berjast fyrir lífi sínu, enda í næst seinasta sæti deildarinnar og þar með í fallsæti. Valsarar geta og verða að gera betur og gera það vonandi í næstu umferð eða þá eftir jólafríið. Grindavík eru á góðum stað en mega ekki slaka á eins og þeir gerðu undir lok þessa leiks og varð þeim næstum að falli.

Viðtöl

Jóhann Árni: “Svona á að vera þegar tvö góð lið spila á móti hvoru öðru.”
Finnur Stefáns: “Endurkoman þarf yfirleitt að vera fullkomin og hún var það ekki í dag.”
Óli Óla: “Já, bara… mér finnst svo gaman að spila vörn.”

Viðtöl og umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Mynd með frétt: Bára Dröfn Kristinsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -