Það var hörkuleikur í Grindavík í kvöld þegar kvennalið Grindavíkur og Njarðvíkur mættust í Iceland Express deild kvenna. Bæði lið ætluðu sér sigur í kvöld og var hart barist frá fyrstu mínútu. Grindavíkurstelpur byrjuðu þó sterkar og leiddu 18-15 eftir 1. leikhluta.
Heiða Valdimarsdóttir skoraði fyrstu körfu annars leikhluta og jafnaði leikinn 18-18 og baráttan hélt áfram. Grindavíkurstelpur spiluðu boltanum nokkuð vel á milli sín meðan Njarðvík þurfti að hafa meira fyrir sínum körfum. Liðin skiptust á að skora en Petrúnella Skúladóttir skoraði síðustu körfu leikhlutans og leiddu Grindavíkurstelpur með 3 stigum í hálfleik 34-31.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri en Grindavíkur tóku síðan öll völd á vellinum í stöðunni 37-36 og þegar aðeins 2 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta var staðan orðin 50-38 fyrir Grindavík, 12 stiga munur og leit út fyrir að Grindavík ætlaði að valta yfir Njarðvík er virtist ekki eiga nein svör við góðum leik Grindavíkurstúlkna. Njarðvíkurstelpur reyndu að berjast áfram en Grindavík var með öll völd og staðan í hálfleik var 52-43.
En Njarðvíkurstelpur byrjuðu fjórða leikhluta af krafti og þar fór reynsluboltinn Auður Jónsdóttur fyrir Njarðvíkurliðinu og á stuttum tíma hafði Njarðvík minnkað muninn í 53-50 þegar Auður skoraði fallegan þrist úr hraðaupphlaupi. Þá tók Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur leikhlé og það skilaði tilætluðum árangri. Jovana Lilja Stefánsdóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir leiddu Grindavíkurstelpur áðan með góðum körfum og á stuttum tíma í 12 stig, 67-55. Njarðvíkurstelpur reyndu eins og þær gátu en sigurinn var í höfn hjá Grindavíkurstúlkum sem unnu leikinn 75-60.
Grindavíkurliðið spilaði mjög vel í dag, boltinn gekk vel milli manna og lítur út fyrir að Jóhann Ólafsson sé að hafa góð áhrif á liðið. Fimm leikmenn skoruðu 10 stig eða meira í leiknum í dag. Best í annars jöfnu liði Grindavíkur var Helga Hallgrímsdóttir með 11 stig og 18 fráköst, Michele DeVault var með 14 stig og 8 fráköst og Ingibjörg Jakobsdóttir var með 14 stig.
Shantrell Moss var með 23 stig fyrir Njarðvík en nýtingin var frekar léleg (8/26) og hefur spilað betur. Auður Jónsdóttir átti góðan leik og mikil barátta í henni en hún skoraði 11 og var með 5 fráköst. Helga Jónasdóttir var með 13 fráköst en klikkaði úr öllum sínum skotum auk þess sem Ólöf Helga Pálsdóttir hefur oft spilað betur og hitti aðeins úr einu skoti af 10.
Bryndís Gunnlaugsdóttir
Mynd: karfan.is – Helga Hallgrímsdóttir átti góðan leik